Sunneva birti myndbönd á samfélagsmiðla af því þegar hún mætti á fæðingardeildina til Jóu að styðja við sína bestu konu. Myndbandið hefur farið sem eldur um sinu á Internetinu og fengið milljónir áhorfs.
Hvenær og hvernig kynntust þið?
Við kynntumst á nýnemakvöldi í MS í ágúst árið 2012. Við enduðum báðar upp á sviði í og kynnumst með góðu handabandi. Jóhanna tók í höndina á Sunnevu og kynnti sig, eftir það urðum við bestu vinkonur.

Var það vinátta við fyrstu sýn?
Já, klárlega. Jóhanna gaf mér (Sunnevu) strax svo góðar víbrur sem var ekki hægt að sleppa. Í hvert skipti sem við hittumst urðum við nánari.

Hvað einkennir ykkar vináttu?
Við myndum lýsa okkar vináttu eins og systraást. Við gerum allt saman og við gerum ekkert saman. Sama hvað önnur okkar gengur í gegnum þá gengur hin í gegnum það sama með henni.
Við erum það nánar að við mætum í fjölskylduboð hjá hvor annarri, sama hvort að sú sem „á“ fjölskylduna sé á staðnum eða ekki. „My family is your family“.

Hvað er það steiktasta eða fyndnasta sem þið hafið lent í saman?
Það er svo margt og mikið fyndið sem við getum hlegið af. Okkar megin ástartungumál (e. love language) er að hlæja saman. Við höfum ferðast ótrúlega mikið saman og oft bara tvær.
Uppáhalds minningin okkar er örugglega Bali ævintýrið okkar.
Við fórum saman tvær sjóhræddar sem fóru í ferðalag um Indónesíu og gistum í brimbrettabúðum. Við fórum báðar með yfir þrjátíu kílóa þungar ferðatöskur og handfarangur í bakpokaferðalag.
Þetta var ævintýri sem allar vinkonur ættu að upplifa saman. Þetta gerði okkur nánari en nokkru sinni fyrr. Þegar þú ferðast ein með vinkonu þá annað hvort verðið þið eins og ókunnugar eftir á eða eins og systur sem gerið allt fyrir hvor aðra.

Hvaða stund þykir ykkur vænst um hingað til?
Það eru hundruði minninga sem koma upp en sú nýjasta er þegar ég, Sunneva, var viðstödd fæðingu sonar Jóhönnu. Ég fékk að upplifa stórkostlegustu stund lífs míns við komu Styrmis Óla í heiminn.
Þetta er dagur sem aldrei verður hægt að útskýra fyrir neinum hversu dýrmætur hann var. Ég fékk að vera viðstödd þegar besta vinkona mín kom lífi í heiminn og mynda hana og maka hennar í fallegasta mómenti sem ég hef séð. Ég er svo þakklát fyrir að þau treystu mér til þess að vera til staðar og mynda þessa fallegu stund.
Þannig að ég (Jóhanna) bæti aðeins við þá verð ég að skjóta inn í að fyrir mér var þetta alveg jafn dýrmætt en bara á allt annan hátt, Styrmir Óli lét heldur betur hafa fyrir sér og ég fór ófáar ferðir upp á spítala haldandi að ég væri að fara af stað og alltaf var Sunneva tilbúin við símann að bíða eftir „go“ frá mér.
Ég gisti tvisvar uppi á spítala áður en hann fæddist og í bæði skiptin sendi ég henni skilaboð um miðja nótt sem ég bjóst við að fá svar við um morguninn en hún var alltaf búin að svara á innan við fimm mínútum og alltaf tilbúin til þess að gera hvað sem er til að hjálpa okkur.
Svo var auðvitað bara ómetanlegt að hafa bestu vinkonu sína á staðnum á annarri af tveimur stærstu stundum lífs míns.

Hefur vinátta ykkar farið í gegnum mis góð tímabil?
Jóhanna hætti í MS árið 2014, þá vorum við búnar að vera vinkonur í tvö ár. Þrátt fyrir það höfum við alltaf haldið sambandi og við höfum átt ótal mörg tímabil saman en sama hvað önnur okkar er að fara í gegnum þá er hin til staðar.
Við erum sterkari með hverju árinu og áttum einmitt spjall um daginn þar sem við skildum ekki hvernig, eftir tólf ára vinskap, við erum nánari heldur en við vorum nokkurn tímann.

Hvað mynduð þið segja að væri það mikilvægasta í vináttu?
Vinkonusambönd eru jafn mikilvæg og makasambönd, ef ekki mikilvægari. Þetta eru manneskjurnar sem labba ekki í burtu þegar það er erfitt eða þú misstígur þig.
Að vera til staðar í gegnum allar hæðir og allar lægðir. Að standa alltaf með vinkonu þinni og vera hjá henni þó hún þurfi bara einhvern til að hlusta á sig. Það er líka ótrúlega mikilvægt að vera aldrei í samkeppni við vinkonu þína, það er það sem skemmir vinkonu sambönd.
Við höfum alltaf stutt hvor aðra í öllu sem við tökumst á og samgleðst og fagnað hvor annarri.
Vinkonusambönd virka aldrei ef það er afbrýðisemi, sama með maka. Það að vera stolt af vinkonu sinni og fagna hverjum einasta sigri er lykillinn.
Ef þú getur ekki verið ánægð/ur/t fyrir vin þá eruði í raun ekki vinir.
