Lífið

„Ég þori al­veg að full­yrða að ég er skítsæmileg móðir“

Auður Ösp Guðmundsdóttir skrifar
Ragnheiður segist alltaf hafa kosið að tala opinskátt um vanda dóttur sinnar og í bókinni opnar hún á sárin.
Ragnheiður segist alltaf hafa kosið að tala opinskátt um vanda dóttur sinnar og í bókinni opnar hún á sárin. Vísir/Anton Brink

Ragnheiður Lárusdóttir hefur undanfarin tíu ár horft upp á dóttur sína hverfa inn í heim fíkniefna og sér ekki fyrir endann á baráttunni, þvert á móti. Hún kýs að tala opinskátt um vandann og sækir huggun í þá staðreynd að önnur börn hennar hafa spjarað sig vel í lífinu. Hún sé ekki verri uppalandi en það. Í nýrri ljóðabók fjallar hún um óttann, örvæntinguna og sorgina en einnig vonina og ástina sem aldrei deyr.

Ragnheiður á þrjú uppkomin börn, tvo syni og eina dóttur. Yngsta dóttir hennar hefur verið í virkri fíkniefnaneyslu undanfarin tíu ár. Í dag er hún 27 ára.

Tíu ára þrautaganga

„Hún leiddist út í fíkniefnaneyslu þegar hún var unglingur og hefur fallið mjög hratt. Hún hefur notað lyf í æð og verið í mjög hörðum og hættulegum efnum, krakk og kókaín. Hún hefur farið í nokkrar meðferðir, en það hefur alltaf keyrt um þverbak. Undanfarið eitt og hálft ár hefur ástandið verið sérstaklega slæmt.

Undanfarin tíu ár hafa verið erfið og þetta hefur tekið sinn toll, bæði á hana og okkur öll í kringum hana. Ég og pabbi hennar, bræður hennar, og allir sem þekkja hana, við höfum öll upplifað mikla vanlíðan, sorg og höfnun. Það er auðvitað mikill sársauki sem fylgir því að horfa upp á barnið sitt í þessum aðstæðum. Þetta er svo mikil sóun, og það er svo sorglegt að hugsa til þess,“ segir Ragnheiður jafnframt.

Það er algengt að foreldrar barna sem leiðast út í neyslu kenni sjálfum sér um, eða festist í neti meðvirkni.

„Maður sér grein fyrir að þetta er sjúkdómur, fyrst og fremst. Það hjálpar mér líka að hugsa til þess að ég á tvö önnur börn sem hafa spjarað sig vel í lífinu. Það er auðvitað ekkert til sem heitir að vera fullkomið foreldri, og ég er svo sannarlega engin undantekning þar. Þú getur aldrei gert allt rétt þegar kemur að uppeldi barna þinna. En ég þori alveg að fullyrða að ég er skítsæmileg móðir og ég veit að ég gerði mitt besta í uppeldinu.“

Í bókinni varðar Ragnheiður upp svipmyndum og lýsir nöturlegum veruleika.Anton Brink

Hún segist alltaf hafa kosið að tala opinskátt um vanda dóttur sinnar.

„Þetta er ekki feimnismál fyrir mér. Ég bara einfaldlega nenni ekki að pukrast með þetta eða vera í einhverju leynimakki. Ég er ekki þannig gerð. Ég upplifði röð áfalla á tímabili; ég gekk í gegnum erfiðan skilnað, ég greindist með krabbamein, móðir mín var greind með alzheimer og sonur minn gekk í gegnum erfið veikindi. Stóru málin í mínu lífi hafa alltaf verið opinber og ég hef alltaf verið mjög hrein og bein með hlutina ef fólk spyr, þó svo að ég sé kanski ekki að fara nákvæmlega út í öll smáatriði. Mér finnst það líka vera ákveðin kurteisi, eða virðingarvottur við annað fólk. Ef fólkið í kringum mig veit hvað ég er að fást við þá getur þá umgengst mig í samræmi við það.“

Ragnheiður lýsir bókinni sem nokkurskonar fléttu af ljóðum. Annars vegar ljóðum sem fjalla um fíkn dóttur, og upplifun móður sem horfir á eftir barninu sínu hverfa ofan í undirheimana. Og hins vegar ljóðum sem dásemdir lífsins, fegurðina í lífinu og í náttúrunni, og hvernig náttúran hefur áhrif á okkur.

„Ég vildi að nefnilega að bókin myndi innihalda ýmis gleðilegri efni, svo fólk drepist nú ekki úr leiðindum og sorg við lesturinn. Það þarf að gefa fólki rými til að anda og slaka á svona inni á milli!“ segir Ragnheiður.

„Á hverri opnu er annars vegar ljóð um manneskjuna í náttúrunni og hins vegar ljóð sem fjalla um veikindi dóttur minnar. Af því að hún er líka manneskja í þessu veðurfari. Það er svo margt í náttúrunni sem hefur áhrif á okkur, eins og veðrið. Lífið skekur mann til og frá, alveg eins og í roki og vindi, þá fýkur maður til og frá. Það er ákveðin samsvörun þarna. 

Þrátt fyrir að ég eigi dóttur í neyslu þá er ýmislegt sem ég get notið í lífinu. Ég get notið þess að skoða haustlaufin, og hlusta hafið, og fuglana á vorin, og fylgjast með sólarlaginu. 

Ljóðin sem fjalla um dóttur mína, þetta er hálfpartinn ævisaga hennar, ég gríp niður í hennar líf hér og þar. Hún byrjaði lífið sem fallegt og gott og skemmtilegt barn. Svo fór að halla undan fæti. En ég er mest að fjalla um erfiðleika hennar síðustu árin og varpa upp svipmyndum.“

Hefur lært að lifa með óttanum

„Ég held að allir foreldrar sem eru eða hafa verið í þessum aðstæðum kannist við þennan stöðuga ótta og varnarleysi sem fylgir. Þetta er eins og að vera laufblað í vindi,“ segir Ragnheiður jafnframt.

„Ég hef þurft að kljást við allskyns aðstæður. Í eitt skipti þurfti ég að fara upp á lögreglustöð um hánótt og láta leita eftir henni, eftir að hafa fengið fregnir úr undirheimunum um að hún væri í hættu. Á endanum kom í ljós að það var ekki svo, það er að segja, þetta var ekki meiri hætta en dagsdaglega hjá einstaklingum sem eru í harðri neyslu.

Það hefur verið stærsta áskorunin í þessu öllu saman; að læra að lifa með þessum ótta og leyfa honum ekki að heltaka mig alveg eða stýra mér. Ég er fyrst núna að ná tökum á því, þó svo að ég hafi ekki fyllilega náð að „mastera“ það. 

Bókin er alls ekki einhver leiðarvísir um hvernig foreldrar eiga að haga sér í þessum aðstæðum; þetta er ég að opna á sárin fyrir öðru fólki.

Í einu ljóðinu kemur fram þessi rosalegi ótti og hræðsla um hana. En það kemur líka fram hvað mér þykir óendanlega vænt um hana. Hún verður alltaf dóttir mín, og hún mun alltaf geta leitað til mín.“

Ragnheiður heldur fast í vonina um að dóttir hennar muni einn daginn ná bata.Anton Brink

Vonin deyr aldrei

Ragnheiður segir að hún muni aldrei gefast upp á að berjast fyrir dóttur sína.

„Síðustu daga hefur hún sýnt breytta hegðun og ég vona að það sé byrjunin á einhverju. Eins og staðan er núna hefur hún verið edrú í tæpa viku og hún á pláss í meðferð seinna í mánuðinum. Við vitum auðvitað ekkert hvernig það á eftir að fara, hvort hún muni fara eða hvort það muni bera einhvern árangur. Það er ekkert sjálfgefið í þessu. En þetta er skref í rétta átt.“

Ragnheiður er kennari að mennt og hefur skrifað alla tíð. Árið 2020 hlaut hún Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar fyrir bókina 1900 og eitthvað. Sú bók er að stórum hluta bernskuminningar og uppvaxtarsaga. Næsta bók, Glerflísakriður, kom út 2021. Þar yrkir Ragnheiður um Alzheimer-veika móður sína og um erfiðan skilnað sem hún sjálf gekk í gegnum. Þriðja bókin Kona/spendýr er um kvenhlutverkið, hlutverk konu í heimi sem er hannaður af körlum fyrir karla. Veður í æðum er fjórða bók Ragnheiðar og um er að ræða safnbók þar sem fyrri þrjár ljóðabækur hennar með.

Í lýsingu á kápu bókarinnar segir:

Í þessari nýju og áhrifamiklu ljóðabók yrkir Ragnheiður Lárusdóttir um þá sáru reynslu að horfa á dóttur lenda í fjötrum fíknar – en líka um þá töfra tilverunnar sem umlykja okkur þrátt fyrir allt.“

Þá er ljóðmáli Ragnheiðar lýst sem beinskeyttu og sterku.

„Mér finnst þetta orð, beinskeytt, vera ágætis lýsing. Vegna þess að ég vil ekki fara fínt í hlutina eða vera með eitthvað hálfkák. Ég vil segja hlutina eins og þeir eru,“ segir Ragnheiður í samtali við Vísi.

Seinasta ljóð bókarinnar heitir Löngu síðar, og fjallar einmitt um vonina.


Löngu síðar

snýr hún aftur

litla stelpan mín

ung kona

harmmörkuð augu

skyggð dökkum baugum

tekið andlit

horaður líkami

gleði, sorg, grátur, reiði

teppa háls móður

hvað á að segja?

gera?

grátur

hinn náttúrurlegi stíflueyðir

lögnu uppþornaður

dóttir komin heim

með snjáða taupoka

fulla af sorg

enn er þó von

um von


Mér fannst viðeigandi að enda á þessu ljóði,“ segir Ragnheiður.

„Af því að ég mun aldrei gefa upp vonina. Á meðan dóttir mín er á lífi þá er alltaf von.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×