Það var mikil spenna í einvíginu eftir fyrri leikinn í gær. Þar voru það Haukakonur sem unnu eins marks sigur eftir góðan endasprett þeirra. Lokatölur 24-23 og Hafnarfjarðarliðið fór því með eins marks forystu inn í síðari leikinn sem telst sem þeirra heimaleikur en báðir leikirnir voru leiknir í Króatíu.
Í leiknum í dag var mikil spenna. Lítið var skorað og að loknum fyrri hálfleikinn var staðan 10-9 fyrir Dalmatinka og því hnífjafnt í einvíginu.
Enn minna var skorað í síðari hálfleiknum. Sonja Lind Sigsteinsdóttir kom Haukum í 16-15 þegar um tvær mínútur voru eftir en króatíska liðið jafnaði í næstu sókn. Ragnheiður Ragnarsdóttir kom síðan Haukum í forystu á ný en Dalmatinka jafnaði strax og rúm mínúta eftir af leiknum.
Þegar 50 sekúndur voru eftir tóku Haukar leikhlé og stilltu upp í lokasókn. Hún endaði með marki frá Rut Jónsdóttur þegar hálf mínúta var eftir og þá var sigurinn í höfn hjá Haukum. Leiknum lauk með 17-16 sigri Hauka sem vinna einvígið þar með 41-39. Frábær sigur og Haukar farnir áfram í næstu umferð.
Rut og Sonja Lind voru markahæstar Hauka í dag með fjögur mörk en þær Ragnheiður og Rakel Oddný Guðmundsdóttir skoruðu þrjú mörk hvor.