Sport

„Þessi strákur er bara al­gjört grín“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Luke Littler spilaði frábærlega í mótinu og vann mjög sannfærandi sigur.
Luke Littler spilaði frábærlega í mótinu og vann mjög sannfærandi sigur. Getty/Justin Setterfield

Táningurinn Luke Littler er ekkert að gefa eftir í pílukastinu. Nú styttist í heimsmeistaramótið og Luke sýndi að hann er í flotti formi þegar fagnaði tímamótasigri í gær eftir stórbrotna frammistöðu.

Hinn sautján ára gamli Littler vann afar öruggan sigur á Martin Lukeman í úrslitaleik „Grand Slam of Darts“ mótsins.

Littler vann úrslitaleikinn 16-3 en það tók hann aðeins 34 mínútur og 43 sekúndur að tryggja sér sigurinn í gullleiknum.

Meðaltal hans var upp á 107,08 og hann var með 45,7 prósent árangur við að klára sett með því að hitta í tvöfaldan reit.

Lukeman var felmtri sleginn í viðtali eftir leikinn enda átti hann ekki möguleika í Littler í slíku stuði.

„Hann fékk sér orkudrykk, máltíð dagsins, kurrý, nammibita og mætir síðan og fer svona með mig. Þessi strákur er bara algjört grín,“ sagði Martin Lukeman.

„Ég tek hatt minn ofan fyrir honum. Hann er algjörlega stórkostlegur og ég óska honum alls hins besta,“ sagði Lukeman.

„Þessi strákur er bara öðruvísi. Hann er enginn Michael van Gerwen. Ef hann heldur haus þá getum við gleymt því að hann sé eitthvað að pæla í metum Van Gerwen því þá verður hann að taka metin af Phil Taylor,“ sagði Lukeman.

„Ef hann heldur sér frá drykkju og kvenfólki og öðru slíku þá getur þessi strákur náð mjög mjög langt,“ sagði Lukeman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×