Eftir vaxtalækkunina í morgun, sem kemur tíu dögum fyrir Alþingiskosningar, standa meginvextir Seðlabankans í 8,5 prósentum – þeir lækkuðu áður um 25 punkta í byrjun október – en í yfirlýsingu nefndarinnar er vísað til þess að verðbólgan hafi haldið áfram að hjaðna og mældist 5,1 prósent í október. „Hjöðnun verðbólgu er á breiðum grunni og undirliggjandi verðbólga hefur einnig minnkað. Þá hafa verðbólguvæntingar almennt lækkað og raunvextir því hækkað.
Umfang vaxtalækkunarinnar er í takt við væntingar en mikill meirihluti þátttakenda í könnun Innherja, sem var birt síðasta mánudag, gerði ráð fyrir 50 punkta lækkun. Þar var vísað til þess að horfur væru á því að raunvaxtastigið færi ört hækkandi á komandi mánuðum, mun meira en peningastefnunefndin hefur sagt nauðsynlegt til að ná niður verðbólgu í markmið, og því væri nefndin undir þrýstingi um að ráðast í að lágmarki fimmtíu punkta vaxtalækkun á þessu stig.
Næsti fundur nefndarinnar er ekki fyrr en snemma í febrúarmánuði.
Í yfirlýsingunni tekur peningastefnunefndin fram að áhrifa þétts peningalegs taumhalds muni áfram gæta í efnahagsumsvifum og hægt hefur á vexti innlendrar eftirspurnar. Þá heldur atvinnuleysi enn að þokast upp og horfur eru á að það dragi úr spennu í þjóðarbúinu þótt það gerist hægar en áður var talið.
Fram kemur í nýrri þjóðhagsspá Seðlabankans, sem birtist samhliða útgáfu Peningamála, að það verði enginn hagvöxtur á yfirstandandi ári en fyrri spá frá því í ágústmánuði gerði ráð fyrir 0,5 prósenta vexti. Þá hafa verðbólguhorfur út næsta ár batnað sömuleiðis en reiknað er með að verðbólgan verði farin undir þrjú prósent á fyrri hluta ársins 2026 og komin í markmið um mitt það ár.
Tóninn í framsýnni leiðsögn peningastefnunefndar sem birtist í yfirlýsingunni er fremur hlutlaus en hún undirstrikar, líkt og áður, að þrálát verðbólga og verðbólguvæntingar yfir markmiði kalli enn á varkárni. Áfram þurfi að viðhalda hæfilegu aðhaldsstigi til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma.
Þá segir nefndin að mótun peningastefnunnar næstu misseri muni sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
Fram kemur í Peningamálum bankans að raunvextir hans séu núna áætlaðir 4,4 prósent miðað við meðaltal raunvaxta sem eru reiknaðir út frá mismunandi mælikvörðum á verðbólgu og verðbólguvæntingar til eins árs og hafa hækkað um 1,5 prósentur frá áramótum.
„Þrátt fyrir lækkun meginvaxta í október eru raunvextir bankans 0,2 prósentum hærri nú en við útgáfu Peningamála í ágúst enda hefur verðbólga hjaðnað og skammtímaverðbólguvæntingar lækkað á flesta mælikvarða. Þetta er áþekk þróun og sjá má í öðrum iðnríkjum,“ segir bankinn.