Sport

Nýr Littler? Tólf ára vann heims­meistarann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jayden Walker á framtíðina fyrir sér í pílukastinu.
Jayden Walker á framtíðina fyrir sér í pílukastinu.

Luke Littler sló eftirminnilega í gegn þegar hann var sextán ára. Nú er komin fram enn yngri pílukastsstjarna sem gæti fetað í fótspor hans; hinn tólf ára Jayden Walker.

Í gær sýndi Walker frábæra takta á móti þar sem pílukastarar kepptu með áhrifavöldum. Walker keppti með YouTube-stjörnunni AngryGinge og þeir hrósuðu sigri á mótinu.

Í átta liða úrslitunum unnu Walker og AngryGinge Fallon Sherrock og hlaðvarpsstjórnandann Jaackmaate. Walker sýndi hversu góður hann er þegar hann tók út 145.

Í undanúrslitunum unnu Walker og AngryGinge Adam Lipscombe og TikTok-stjörnuna George Scaife og í úrslitunum sigruðu þeir svo Glen Durrant og Charlie Murphy. Walker náði meðal annars einum 180 í úrslitaleiknum.

Ekki nóg með að Walker hafi unnið umrætt mót heldur sigraði hann sjálfan heimsmeistarann Luke Humphries, 2-1, í æfingaleik í Portsmouth á laugardaginn. Hann var með yfir 102 í meðaltalsskor í leiknum gegn Humphries. Walker fannst samt merkilegra að vinna mótið en sigra heimsmeistarann.

„Ótrúlegt. Ég bjóst ekki við því að vinna þetta,“ sagði Walker. „En ég vissi líka hversu góður félagi minn er svo ég taldi okkur eiga frábæra möguleika.“

AngryGinge hrósaði Walker í hástert og sagði hann hafa komið þeim í gegnum fyrstu tvær umferðirnar en þeir hafi svo hjálpast að við að vinna Durrant og Murphy í úrslitaleiknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×