Lífið

Orð ársins vísar til rotnunar heilans

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Nánast allir og ömmur þeirra eru á samfélagsmiðlum og stöðugt að innbyrða nýtt efni, óháð mikilvægi þess.
Nánast allir og ömmur þeirra eru á samfélagsmiðlum og stöðugt að innbyrða nýtt efni, óháð mikilvægi þess. Vísir/Getty

Oxford orð ársins að þessu sinni hefur verið valið og vísar til rotnunar heilans. Orðið er „brain rot“ og fangar áhyggjur af endalausri neyslu á misgáfulegum upplýsingum af samfélagsmiðlum.

Fram kemur í umfjöllun Guardian að orðið hafi verið valið í atkvæðagreiðslu þar sem yfir 37 þúsund manns tóku þátt. Sex orð eða orðasambönd voru valin af Oxford University útgáfunni, þeirri sem gefur út samnefnda orðabók.

Orðið að þessu sinni vísar til mögulegrar rýrnunar á heilastarfsemi einstaklings eftir að hafa innbyrt of mikið af tilgangslausum upplýsingum. Að sögn útgáfunnar hefur hugtakið öðlast nýtt vægi á árinu 2024 og nær vel utan um þær áhyggjur sem eru uppi um mikla samfélagsmiðlanotkun.

Fram kemur í umfjöllun miðilsins að hugtakið hafi fyrst verið skrásett árið 1854 í bókinni Walden eftir David Thoreau. Næst á eftir „brainrot“ komu orð eins og „demure“ og „slop.“ Hið fyrra vísar til ábyrgrar og virðingarverðrar hegðunar á meðan hið síðara vísar til efnis sem búið er til með gervigreind.

Oxford verðlaunin hafa gjarnan vakið mikla athygli en ekki síst á undanförnum árum með tilkomu samfélagsmiðla. Þannig var orðið „rizz“ valið orð ársins í fyrra en er vinsælt meðal ungmenna á samfélagsmiðlum líkt og TikTok og er stytting á orðinu „charisma“ sem vísar til persónutöfra og útgeislunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.