Sport

Á­tján ára vonarstjarna pílukastsins dæmd í átta ára bann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Leighton Bennett verður orðinn 27 ára þegar hann má aftur keppa í pílukasti.
Leighton Bennett verður orðinn 27 ára þegar hann má aftur keppa í pílukasti. getty/Simon Cooper

Leighton Bennett þótti eitt mesta efnið í pílukastinu. Hann má hins vegar spila aftur fyrr en 2032 því hann hefur verið dæmdur í átta ára bann fyrir að hagræða úrslitum.

Bennett gerðist brotlegur í tíu liðum en hann hjálpaði til við að hagræða úrslitum í fjórum leikjum. Hann veitti meðal annars innherjaupplýsingar, aðstoðaði ekki við rannsókn málsins og samdi við óskráðan umboðsmann.

Bannið sem Bennett var dæmdur í rennur út í ágúst 2032 en þá verður hann orðinn 27 ára. Annar pílukastari, Billy Warriner, var einnig fundinn sekur í málinu og fékk enn þyngri refsingu en Bennett. Hann var dæmdur í tíu ára bann.

Leikirnir sem um ræðir voru á Modus Super Series á síðasta ári. Grunur um að Bennett hefði haft rangt við vaknaði meðal annars vegna mjög undarlegra kasta hjá honum þegar hann var í góðri stöðu. Sum köstin voru svo skrítin að það var eins og hann hefði viljandi misst marks.

Sem fyrr sagði voru miklar væntingar gerðar til Bennetts en þeir Luke Littler áttu að vera andlit næstu kynslóðar í pílukastinu. Bennett vann meðal annars HM ungmenna hjá BDO samtökunum þegar hann var aðeins þrettán ára, yngstur allra í sögu mótsins. Í ár öðlaðist hann svo þátttökurétt á PDC mótaröðinni.

Auk þess að vera dæmdur í átta ára bann þarf Bennett að greiða 8.100 pund í sekt, eða tæplega eina og hálfa milljón króna.

Bennett og Warriner hafa frest til 14. desember til að áfrýja úrskurðinum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×