Innherji

Hátt raun­vaxta­stig gæti farið að „skapa á­skoranir“ fyrir fjár­mála­kerfið

Hörður Ægisson skrifar
Fjármálastöðugleikanefnd ásamt ritara nefndarinnar. Fremst á myndinni frá vinstri eru þau Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, og Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits.
Fjármálastöðugleikanefnd ásamt ritara nefndarinnar. Fremst á myndinni frá vinstri eru þau Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri, Tómas Brynjólfsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, og Björk Sigurgísladóttir, varaseðlabankastjóri fjármálaeftirlits.

Stóru bankarnir standa traustum fótum, með sterka lausafjárstöðu og gott aðgengi að markaðsfjármögnun, en hátt raunvaxtastig á sama tíma og það er að hægja á efnahagsumsvifum gæti „skapað áskoranir“ fyrir fjármálakerfið á næstunni, að mati fjármálastöðugleikanefndar Seðlabankans. Nefndin hefur ákveðið að lækka gildi svonefnds kerfisáhættuauka byggt á því mati að kerfisáhætta hér á landi hafi minnkað á síðustu árum og viðnámsþróttur fjármálakerfisins aukist.

Í yfirlýsingu sem fjármálastöðugleikanefnd hefur sent frá sér bendir hún á að það séu víðsjárverðir tímar á alþjóðavettvangi sem gætu haft ófyrirséð áhrif á fjármálakerfið. Hins vegar ber enn lítið á vanskilum eða greiðsluerfiðleikum bæði hjá heimilum og fyrirtækjum.

Varnarorð nefndarinnar um að hátt raunvaxtastig – það mælist núna í kringum fjögur prósent og hefur haldist á þeim slóðum þar frá því á vormánuðum – geti farið að valda bönkunum erfiðleikum kemur í kjölfar þess að meginvextir Seðlabankans voru lækkaðir í síðasta mánuði úr 9 í 8,5 prósent. Raunvaxtastigið hélst hins vegar óbreytt og seðlabankastjóri var skýr í yfirlýsingum sínum um slíkt aðhald væri enn nauðsynlegt til að ná verðbólgunni niður markmið, en mögulega væri hægt að slaka á því seint á næsta ári þegar útlit væri fyrir að framleiðsluspennan myndi snúast í slaka.

Bankarnir eru kerfislega mikilvægir fyrir íslenska hagkerfið enda líklegt að fall eins þeirra myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika hér á landi og að öllum líkindum hafa talsverð smitáhrif í för með sér fyrir önnur fjármálafyrirtæki og hagkerfið í heild.

Samkvæmt árlegu endurmati fjármálastöðugleikanefndar var staðfest að stóru bankarnir – Arion, Íslandsbanki og Landsbankinn – yrðu eftir sem áður einu fjármálafyrirtækin skilgreind sem kerfislega mikilvæg. Fyrir þau fyrirtæki voru endurmetnir tilteknir eiginfjáraukar sem leggjast ofan á eiginfjárkröfur þeirra.

Þannig ákvað nefndin að lækka gildi kerfisáhættuaukans úr þremur í tvö prósent. Lækkunin byggir á því mati, að því er segir í yfirlýsingu, að kerfisáhætta hafi minnkað frá því að gildi aukans var fyrst ákveðið árið 2016.

„Ljóst er að viðnámsþróttur fjármálakerfisins hefur aukist á síðustu árum, sem birtist meðal annars í minni breytileika helstu hagstærða þrátt fyrir að ýmis áföll hafi dunið yfir. Þá hafa ný þjóðhagsvarúðartæki sannað gildi sitt og umgjörð í kringum viðhald fjármálastöðugleika er nú heilsteyptari en áður,“ nefndin.

Á sama tíma ákvað hún hins vegar að hækka eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki úr tvö í þrjú prósent. Sú hækkun er sögð miða að því að „fanga betur“ þá áhættu sem að hagkerfinu stafar vegna stærðar og umfangs kerfislega mikilvægra fyrirtækja. Þannig er bent á það í minnisblaði með rökstuðningi nefndarinnar að hlutdeild stóru bankanna í heildarstærð kerfisins, metið út frá heildareignum var um 80 prósent, hlutdeild í innlánum einkageirans um 94 prósent og hlutdeild þeirra í útlánum til einkageirans var tæplega 90 prósent.

„Það er því ljóst að hver um sig eru bankarnir kerfislega mikilvægir fyrir íslenska hagkerfið enda líklegt að fall eins þeirra myndi hafa veruleg neikvæð áhrif á fjármálastöðugleika hér á landi og að öllum líkindum hafa talsverð smitáhrif í för með sér fyrir önnur fjármálafyrirtæki og hagkerfið í heild,“ segir í minnisblaðinu.

Lækkun kerfisáhættuauka og hækkun eiginfjárauka fyrir kerfislega mikilvæg fjármálafyrirtæki hefur í för með sér að heildareiginfjárkrafa á kerfislega mikilvægu bankana þrjá verður nánast óbreytt. Hins vegar, eins og nefndin útskýrir í yfirlýsingu sinni, mun eiginfjárkrafan lækka á smærri innlánsstofnanir sem ekki teljast kerfislega mikilvægar.

Ljóst er að viðnámsþróttur fjármálakerfisins hefur aukist á síðustu árum, sem birtist meðal annars í minni breytileika helstu hagstærða þrátt fyrir að ýmis áföll hafi dunið yfir.

Þar er meðal annars um að ræða Kviku banka, fjórða stærsta fjármálafyrirtæki landsins.

Fjármálastöðugleikanefnd samþykkti einnig á fundi sínum stefnu um beitingu svonefnds sveiflujöfnunarauka. Hún felur meðal annars í sér að gildi aukans sé að jafnaði á bilinu 2 til 2,5 prósent af innlendum áhættugrunni. Nefndin fylgir hér fordæmi ýmissa Evrópuríkja, að því er hún segir í yfirlýsingu, og jafnframt var ákveðið að halda gildi aukans óbreyttu í 2,5 prósent í ársfjórðungslegu endurmati. Nefndin áréttar samt mikilvægi þess að fjármálafyrirtæki búi yfir sterkri eiginfjárstöðu til að tryggja viðnámsþrótt gagnvart áföllum.

„Fjármálastöðugleikanefnd undirstrikar mikilvægi þess að áfram sé unnið að því að auka rekstraröryggi í greiðslumiðlun. Jákvæð skref í átt að innlendri óháðri greiðslulausn hafa verið stigin og nefndin væntir þess að innleiðing sjálfstæðrar lausnar hefjist á næsta ári,“ segir að lokum í yfirlýsingunni í morgun, og bætt við:

„Fjármálastöðugleikanefnd mun sem fyrr beita þeim stýritækjum sem hún hefur yfir að ráða til að varðveita fjármálastöðugleika þannig að fjármálakerfið geti staðist áföll, miðlað lánsfé og greiðslum og dreift áhættu með viðhlítandi hætti.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×