Um gelluæði Spánverja á aðventunni er fjallað á vef Samherja. Þar er haft eftir Sunnevu Ósk Guðmundsdóttur, framleiðslustjóra Samherja á Akureyri, að reynt sé eftir bestu getu að verða við óskum kaupenda, ferskar gellur séu því sendar með flugi til Spánar.
„Ég er ekki frá því að suma daga séu samtals hátt í tuttugu manns að gella, bæði hérna á Akureyri og á Dalvík. Fjöldinn fer eftir því hvaða fisktegundir er verið að vinna hverju sinni og þegar ekki er verið að gella sinna starfsmennirnir öðrum verkefnum. Þeir sem gella þurfa stundum að mæta snemma á morgnana, áður en sjálf vinnslan hefst.“
Borðaðar allt árið en kosta skildinginn
Þá er haft eftir Kenneth Holst Moe, framkvæmdastjóra Icefresh Seafood Spain, að rík hefð sé meðal margra Spánverja að borða gellur, sér í lagi á aðventunni.
„Upphafið má rekja til þess að spænskir sjómenn máttu á árum áður hirða gellur og kinnar, þetta var nokkurs konar bónus á launin. Spænskum togurum sem veiða þorsk hefur fækkað mikið í áranna rás, fólk vill engu að síður fá gellur og þá liggur beinast við að flytja þær inn frá Íslandi. Gellur eru borðaðar allan ársins hring hérna á Spáni. Sökum þess að þær eru tiltölulega dýrar kaupir fólk þær við sérstök tækifæri, svo sem í aðdraganda jólanna. Neyslan eykst því verulega þessar vikurnar.“