Sport

Kol­beinn mætir Bubu í kvöld: „Stefni á að klára bar­dagann snemma“

Aron Guðmundsson skrifar
Kolbeinn Kristinsson er enn ósigraður á sínum atvinnumannaferli í hnefaleikum og ætlar sér að bæta við enn einum sigrinum í kvöld
Kolbeinn Kristinsson er enn ósigraður á sínum atvinnumannaferli í hnefaleikum og ætlar sér að bæta við enn einum sigrinum í kvöld Mynd/Kolbeinn

Kolbeinn Kristinsson stígur inn í hnefaleikahringinn í kvöld og mætir hinum pólska Piotr "Bubu" Cwik. Kolbeinn er ósigraður á atvinnumannaferli sínum til þessa og getur með sigri í kvöld, hvað þá öruggum sigri komist ansi nálægt topp 50 sætum heimslistans í þungavigtarflokki.

Bardagakvöldið fer fram í Vínarborg og er um að ræða þriðja bardaga Kolbeins á árinu eftir ár þar á undan þar sem að hann náði ekki að vera eins aktívur. Það hefur verið jákvætt fyrir hann að geta stigið svona reglulega inn í hringinn.

„Það gefur manni alltaf mikið og sér í lagi eftir þessi ár á undan þar sem að ég náði ekki að keppa reglulega,“ segir Kolbeinn í samtali við Vísi en andstæðingur hans í kvöld, Piotr á að baki níu bardaga á sínum atvinnumannaferli í hnefaleikum eftir að hafa áður keppt í bare knuckle boxing þar sem að ekki er keppt með boxhanska heldur bera hnefa.

Piotr hefur nú unnið átta bardaga í röð en Kolbeini lýst vel á að mæta honum í Vínarborg í kvöld.

„Það hefur hentað mér vel í gegnum tíðina að berjast við menn í hans stærð. Menn sem að eru aðeins minni en ég. Það er eins með alla þessa kappa í þungavigtarflokki, þeir geta allir slegið fast en leiðin til þess að verjast því er að gefa þeim ekki færi á því að slá mann. Ég ætla mér að nýta hraðann og snerpuna gegn honum, þreyta hann og ég stefni á að klára bardagann og það snemma.“

Samkvæmt MMA fréttum má búast við því að Kolbeinn stígi inn í hnefaleikahringinn í Vínarborg um níuleytið í kvöld þar sem að bardagi hans er sá níundi í röðinni í þriðja holli kvöldsins. Hægt er að kaupa streymi á hnefaleikakvöldið hér.

Box



Fleiri fréttir

Sjá meira


×