Liðin mættust í Bónusdeildinni á föstudagskvöldið en þá vann Keflavík stórsigur 120-83. Benedikt verður á hliðarlínunni í leiknum í kvöld en sat af sér bann á föstudagskvöldið og horfði á tapið upp í stúku.
„Það var mjög erfitt að vera ekki með í slagnum og þurfa horfa á þetta úr stúkunni. Það verður gott að fá að vera með í kvöld og reyna hafa einhver áhrif,“ segir Benni í hádegisfréttum Bylgjunnar.
Sadio Dacoure leikmaður Tindastóls fór af velli meiddur á föstudagskvöldið og er hann puttabrotinn
„Mér finnst mjög ólíklegt að hann verði með í kvöld. Við erum á leiðinni á skotæfingu núna til að gera okkur klára fyrir kvöldið. Hann var ekkert með á æfingu í gær. Við erum að reyna meta þetta hvort hann geti gert eitthvað en mjög ólíklegt að hann verði með.“
En hvað þurfa Stólarnir að gera betur í kvöld til að koma sér áfram í 8-liða úrslitin í VÍS bikarnum?
„Við þurfum auðvitað að spila miklu betri vörn og megum ekki hleypa Keflvíkingum í svona skotpartí, við verðum að dekka skotmennina þeirra miklu betur, þurfum að stíga betur út og taka fleiri fráköst. Það er svo margt sem við þurfum að gera betur.“