Sport

„Verður gott að fá að vera með í kvöld og reyna hafa ein­hver á­hrif“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Benedikt Guðmundsson er þjálfari Tindastóls
Benedikt Guðmundsson er þjálfari Tindastóls Vísir/Anton Brink

„Þetta er frekar týpískt að lið spili tvo leiki í röð og hittir oft þannig á,“ segir Benedikt Guðmundsson, þjálfari Tindastóls, fyrir bikarleik Tindastóls gegn Keflavík suður með sjó í kvöld.

Liðin mættust í Bónusdeildinni á föstudagskvöldið en þá vann Keflavík stórsigur 120-83. Benedikt verður á hliðarlínunni í leiknum í kvöld en sat af sér bann á föstudagskvöldið og horfði á tapið upp í stúku.

„Það var mjög erfitt að vera ekki með í slagnum og þurfa horfa á þetta úr stúkunni. Það verður gott að fá að vera með í kvöld og reyna hafa einhver áhrif,“ segir Benni í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Sadio Dacoure leikmaður Tindastóls fór af velli meiddur á föstudagskvöldið og er hann puttabrotinn

„Mér finnst mjög ólíklegt að hann verði með í kvöld. Við erum á leiðinni á skotæfingu núna til að gera okkur klára fyrir kvöldið. Hann var ekkert með á æfingu í gær. Við erum að reyna meta þetta hvort hann geti gert eitthvað en mjög ólíklegt að hann verði með.“

En hvað þurfa Stólarnir að gera betur í kvöld til að koma sér áfram í 8-liða úrslitin í VÍS bikarnum?

„Við þurfum auðvitað að spila miklu betri vörn og megum ekki hleypa Keflvíkingum í svona skotpartí, við verðum að dekka skotmennina þeirra miklu betur, þurfum að stíga betur út og taka fleiri fráköst. Það er svo margt sem við þurfum að gera betur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×