Körfubolti

„Já­kvæðasta er að það eru 12 leikir eftir“

Hjörvar Ólafsson skrifar
Pétur Ingvarsson freistar þess að stappa stálinu í sína menn. 
Pétur Ingvarsson freistar þess að stappa stálinu í sína menn.  Vísir/Anton Brink

Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur, hefði viljað sjá lið sitt stíga betur út í fráköstum og nýta opin sniðskot betur þegar lið hans laut í minni pokann og tapaði fyrir Stjörnunni í Bónus-deild karla í körfubolta í kvöld. 

„Mér fannst við sýna það í kvöld að við erum á pari við topplið deildarinnar og eftir hörkuleik er svekkjandi að hafa ekki náð að knýja fram sigur. Það er aftur á móti margt sem við getum tekið með okkur frá þessum leik þrátt fyrir tapið,“ sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari Keflavíkur.

„Það eru sóknarfráköst þeirra og mislukkuð lay up hinu megin sem verða okkur að falli og það er grátlegt að horfa upp á það. Eftir að hafa byrjað leikinn vel vorum við að elta í seinni hálfleik. Við náðum áhlaupum en ekki að komast yfir hjallann að komast aftur yfir,“ sagði Pétur þar að auki.

Tölfræðin bakkar upp greiningu Péturs á leiknum en Stjarnan tók 50 fráköst í þessum leik á móti 33 fráköstum hjá gestunum frá Keflavík. 

Eftir þennan ósigur hefur Keflavík halað inn 10 stigum í fyrstu 10 leikjum sem er undir pari miðað við væntingar suður með sjó þegar lagt var af stað inn í keppnistímabilið. 

„Við erum ekki sáttir við stigasöfnunina. Það er alveg á hreinu. Við settum saman lið sem stefnir á að berjast um alla þá titla sem í boði. Það jákvæðasta er kannski að það eru 12 leikir og nóg af stigum enn í pottinum góða“ sagði hann um stöðu mála.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×