Á myndinni má sjá hina tólf ára Estelle prinsessu, dóttur Viktoríu krónprinsessu og Daníels prins, þar sem hún er með lúsíukrans á höfðinu og heldur á öskju með svokölluðum lúsíuköttum.
Í texta með myndinni segir að Viktoría hafi tekið myndina í Haga-kastala, heimili fjölskyldunnar, fyrr í morgun.
Lúsía var ítalskur dýrlingur sem lést sem píslarvottur í Sýrakúsu á Sikiley árið 304 eftir Krist.
Í færslu sænska sendiráðsins á Íslandi segir að á degi heilagrar Lúsíu megi jafnan sjá konur á vinnustöðum, stúlkur í skólum og á opinberum stöðum ganga um í hvítum serkjum. Sú fremsta, Lúsía, gangi með ljósakrans á höfði og rauðan borða um sig miðja. Um sé að ræða svokallað „Luciatåg“ sem á íslensku mætti þýða Lúsíuganga. Þar gangi jafnframt hvítklæddir karlmenn eða drengir, svokallaðir „stjärngossar“ eða stjörnustrákar.
Þetta er upphaf jólaföstu og hátíðar ljóssins.