Sport

Settu Ís­lands­met í nýrri grein á HM

Sindri Sverrisson skrifar
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Einar Margeir Ágústsson, Guðmundur Leó Rafnsson og Snæfríður Sól Jórunnardóttir settu Íslandsmet í nýrri grein á HM í dag.
Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Einar Margeir Ágústsson, Guðmundur Leó Rafnsson og Snæfríður Sól Jórunnardóttir settu Íslandsmet í nýrri grein á HM í dag. SSÍ

Boðsundssveit Íslands endurtók leikinn frá því í gær og setti nýtt Íslandsmet í dag, á næstsíðasta degi heimsmeistaramótsins í sundi í 25 metra laug, sem fram fer í Búdapest. Það var þó í raun óhjákvæmilegt að setja met í dag.

Sveit Íslands í dag var nánast sú sama og setti Íslandsmet í 4x50 metra skriðsundi í gær.

Í dag var þó Einar Margeir Ágústsson í hópnum í staðinn fyrir Símon Elías Statkevicius, en áfram þær Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Snæfríður Sól Jórunnardóttir, og Guðmundur Leó Rafnsson.

Þau kepptu í 4x100 metra fjórsundi en það er ný grein á mótinu og í fyrsta sinn sem að íslensk sveit keppir í henni. Þau urðu í 19. sæti af 35 sveitum, á 3:45,01 mínútum.

Einnig var keppt í einstaklingsgreinum í dag. Jóhanna Elín synti 50m skriðsund á tímanum 25,28 sem jafnframt er þriðji besti tími hennar í greininni, hún varð í 44 sæti, besti tími Jóhönnu er 25,08.

Símon Elías synti einnig 50m skriðsund og synti í annað sinn undir 22 sekúndum, eða á 21,98 sem er aðeins 5/100 frá Íslandsmetinu sem hann setti á ÍM25 í nóvember. Símon Elías varð í 38 sæti.

Snorri Dagur Einarsson synti 50m bringusund á tímanum 27,07 sem er örlítið frá hans besta tíma, 26,92, sem hann synti á ÍM25 í nóvember. Snorri varð í 39. sæti.

Á morgun er lokadagur þar sem fróðlegt verður að fylgjast með framgöngu Snæfríðar Sólar Jórunnardóttur í sinni sterkustu grein, 200 metra skriðsundi. Guðmundur Leó Rafnsson keppir í 200 metra baksundi og sveit Íslands í 4x100 metra fjórsundi karla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×