Lífið

„Bara á Ís­landi“

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Þeir félagar stóðust ekki mátið að taka sjálfu.
Þeir félagar stóðust ekki mátið að taka sjálfu.

Félagarnir Björgvin Ingi Ólafsson meðeigandi Deloitte á Íslandi og Guðni Th. Jóhannesson fyrrverandi forseti Íslands skelltu sér í útihlaup í gær. Það væri svo sem ekki í frásögur færandi ef ekki væri fyrir þá staðreynd að í túrnum rákust þeir á Björn Skúlason forsetamaka.

„Bara á Íslandi. Í dag fór ég út að hlaupa með fyrrverandi forsetanum. Eina manneskjan sem við hittum var eiginmaður núverandi forseta,“ skrifar Björgvin á samfélagsmiðlinum X, áður Twitter. Þar birtir hann mynd af þríeykinu í færslu sem vakið hefur gríðarlega athygli.

„Þetta fangar alveg stemninguna, ég veit ekki hvar annars staðar þetta myndi gerast,“ segir Björgvin hlæjandi í samtali við Vísi. Þríeykið rakst á hvort annað við undirgöng á milli Prýðahverfisins í Garðabæ og Álftaness.

Þeir Guðni eru félagar að fornu fari en þeir eiga stráka sem æfa saman fótbolta auk þess sem leiðir þeirra lágu saman þegar Guðni var forseti. „Svo vann ég nú með Bjössa og Höllu í gamla daga, þannig það er þetta klassíska íslenska að við könnuðumst allir við hver annan.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.