Sport

Sló í gegn á HM: Villtist á leið upp á svið og fagnaði eins og Cole Palmer

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rashad Sweeting stal senunni í Ally Pally í gær.
Rashad Sweeting stal senunni í Ally Pally í gær. getty/Steven Paston

Þrátt fyrir að Rashad Sweeting hafi tapað fyrir Jeffrey De Graaf á HM í pílukasti í gær er óhætt að segja að hann hafi slegið í gegn hjá áhorfendum í Alexandra höllinni í London.

Sweeting varð í gær fyrsti keppandinn frá Bahaeyjum til að taka þátt á HM. Hann gekk inn í Alexandra höllina á meðan lagið „I'm a Bahamian (That's What I Like)“ með Nakhaz hljómaði.

Sweeting var þó eitthvað áttavilltur í Ally Pally því hann villtist á leið sinni upp á sviðið. Starfsmaður vísaði honum síðan á réttan stað.

Þegar uppi á sviðið var komið sýndi Sweeting góða takta. Hann vann fyrsta settið og fékk gott tækifæri til að vinna annað settið. Sweeting tapaði því hins vegar, 3-2.

Hann náði þó 180 í oddaleggnum og fagnaði eins og Cole Palmer, leikmaður Chelsea og enska landsliðsins, við mikinn fögnuð viðstaddra. Seinna kom í ljós að hann hafði orðið við ósk aðdáanda um að nota fagnið.

Eftir þessa góðu byrjun Sweetings reyndist hinn sænski De Graaf sterkari og vann leikinn, 3-1. Sweeting fangaði samt hug og hjörtu áhorfenda í Ally Pally sem vonast væntanlega til að sjá hann aftur á stóra sviðinu að ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×