Hefðuð þið trúað því á nýársdag að þið mynduð ranka við ykkur í desember og Inga Sæland væri við það að verða ráðherra? Við fórum yfir hina óvæntu atburðarás í annál fréttastofu, sem horfa má á hér fyrir neðan. Annállinn hefst á ávarpi Guðna á nýársdag og rekur svo það sem fylgdi á eftir.
Óvænt brotthvarf Guðna þýddi að Katrín Jakobsdóttir þáverandi forsætisráðherra þurfti að taka ákvörðun. Strax í vor var byrjað að hvísla um mögulegt forsetaframboð hennar. Og svo bara gerðist það, þó að undir það síðasta hafi framboð Katrínar verið orðið ansi illa geymt leyndarmál, eins og farið er yfir í annálnum.
Óvissuferð Katrínar skildi svo ríkisstjórnina eftir í hálfgerðu reiðileysi, sem endaði á óvæntum vendingum í október. Krísufundi í Valhöll lauk „án niðurstöðu“ en tveimur dögum síðar barst óvænt bomba frá Bjarna Benediktssyni.