Sport

Hafnar­fjarðar­liðin völdu íþrótta­fólk ársins

Smári Jökull Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson lyftir hér bikarnum eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með FH á dögunum í fyrsta sinn á hans ferli.
Aron Pálmarsson lyftir hér bikarnum eftir að hafa orðið Íslandsmeistari með FH á dögunum í fyrsta sinn á hans ferli. Vísir/Pawel

Hafnarfjarðarliðin FH og Haukar völdu í gær íþróttafólk ársins innan sinna raða. Landsliðsfólk í handbolta var meðal þeirra sem fengu viðurkenningu.

Haukar völdu íþróttafólk ársins innan sinna raða í gær. Elín Klara Þorkelsdóttir, landsliðskona í handknattleik, var valin íþróttakona ársins en á dögunum var hún valin íþróttakona Hafnarfjarðar en báðar viðurkenningarnar er hún að hljóta annað árið í röð.

Þá var karatemaðurinn Gunnlaugur Sigurðsson valinn íþróttakarl Hauka og knattspyrnuþjálfarinn Hörður Bjarnar Hallmarsson þjálfari ársins.

Elín Klara, Gunnlaugur og Hörður Bjarnar hlutu viðurkenningar hjá Haukum í gær.Heimasíða Hauka

Í Kaplakrika völdu FH-ingar sitt besta íþróttafólk á árinu. Þar varð Aron Pálmarsson fyrir valinu sem íþróttamaður ársins en Aron var lykilmaður deildar- og Íslandsmeistara FH í handknattleik á síðustu leiktíð en hann var þá kjörinn mikilvægasti leikmaður tímabilsins sem og besti maður úrslitaeinvígisins gegn Aftureldingu.

Irma Gunnarsdóttir var valin íþróttakona FH en hún mætti Íslandsmetið í þrístökki utanhúss á síðasta ári með stökki upp á 13,61 metra en það setur hana í flokk hundrað bestu þrístökkvara í heimi á síðasta ári. Þá náði Irma einnig góðum árangri í langstökki og kúluvarpi.

Irma var valin íþróttakona FH.Vísir/Sigurjón



Fleiri fréttir

Sjá meira


×