Veður

Dá­lítil él og frost að tíu stigum

Atli Ísleifsson skrifar
Um helgina er útlit fyrir kalda norðlæga átt.
Um helgina er útlit fyrir kalda norðlæga átt. Vísir/Vilhelm

Veðurstofan gerir ráð fyrir vestan og norðvestan fimm til þrettán metrum á sekúndu í dag. Gera má ráð fyrir dálitlum éljum, en bjart að mestu á Suðausturlandi.

Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að frost verði yfirleitt á bilinu núll til tíu stig, en frostlaust við suðvesturströndina og þar muni eitthvað blotna í snjónum.

„Fremur hæg breytileg átt á morgun. Slydda suðvestanlands fram eftir morgni, annars víða él, þó síst austantil. Heldur vaxandi norðaustanátt annað kvöld.

Um helgina er útlit fyrir kalda norðlæga átt. Él um landið norðaustanvert, en að mestu þurrt sunnan- og vestanlands,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Spákort fyrir klukkan 14 í dag.Veðurstofan

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag: Breytileg átt, víða 3-10 m/s og dálítil snjókoma eða él, en slydda suðvestantil fram eftir morgni. Kólnandi, frost 0 til 10 stig síðdegis, kaldast á Austurlandi. Gengur í norðaustan 8-15 um kvöldið.

Á laugardag: Norðlæg átt 5-13. Lítilsháttar él norðaustantil og einnig allra syðst, annars bjart með köflum. Herðir á frosti.

Á sunnudag, mánudag og þriðjudag: Norðanátt 8-15 og él, en þurrt á Suður- og Vesturlandi. Frost 4 til 11 stig.

Á miðvikudag: Breytileg átt og víða bjart, en dálítil él við norðurströndina. Áfram kalt í veðri.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×