Handbolti

Þórir búinn að opna pakkann

Sindri Sverrisson skrifar
Þórir Hergeirsson fékk danskan „hoptimist“ að gjöf frá Jesper Jensen.
Þórir Hergeirsson fékk danskan „hoptimist“ að gjöf frá Jesper Jensen. Getty/Hoptimist

Þórir Hergeirsson fékk óvænta gjöf frá Jesper Jensen, þáverandi landsliðsþjálfara Danmerkur, eftir síðasta leik sinn sem þjálfari norska kvennalandsliðsins í handbolta. Hann er núna búinn að opna pakkann.

Það var ljóst fyrir EM í desember að mótið yrði það síðasta hjá Þóri með norska landsliðinu, og hann kvaddi með Evrópumeistaratitli eftir sigur gegn Danmörku í úrslitaleiknum.

Eftir mót, eða í síðustu viku, kom svo reyndar í ljós að þetta var einnig kveðjustund hjá Jesper Jensen sem ákvað að hætta með danska liðið ári áður en samningur hans við danska sambandið átti að renna út.

En á síðasta blaðamannafundi Þóris í starfi, á EM í desember, gaf Jensen honum gjöf og sagði: „Ég er ánægður með að vera hérna í síðasta leiknum þínum. Ég hefði gjarnan viljað vinna þig einu sinni, eða alla vega vinna þig einu sinni. Mér finnst þú mega vera stoltur eftir að hafa sett ný viðmið í handbolta kvenna. Þú átt mína dýpstu virðingu, af öllu mínu hjarta.“

Fékk hoppandi broskall

Þórir tók við gjöfinni frá Jensen og hefur núna greint frá því hvað var í pakkanum, en þetta kemur fram á Nettavisen:

„Það var danskur „hoptimist“ í pakkanum. Það var gaman að fá hann,“ sagði Þórir en „hoptimist“ er skemmtileg fígúra eða skrautmunur úr smiðju dansks hönnuðar, eins konar broskall með fjöðrun. Fígúran á að tákna mikla gleði og orku, en hvað les Þórir í þessa gjöf?

„Ég veit það nú ekki en ég hef gaman af svona fígúrum. Þetta er kannski táknrænt. Ég hef átt mjög gott vinnusamband við Jesper. Hann hefur alltaf komið vel fram og er maður með góð gildi. Áreiðanlegur náungi,“ sagði Þórir við Nettavisen.

Vill ekki taka við Danmörku núna

Selfyssingurinn var að sjálfsögðu spurður út í starfið sem nú er laust hjá danska landsliðinu en hló þá létt:

„Það er ekki í myndinni núna. En það er á hreinu að…“ byrjaði Þórir en stoppaði svo. „Það er ekki í myndinni að svo stöddu. Ég ætla mér að standa utan við þetta í smástund og velta hlutunum fyrir mér,“ sagði Þórir. En freistar ekki að taka við Danmörku?

„Ekki akkúrat núna. Ég vil nota tímann í annað akkúrat núna og svo sjáum við hvað það endist,“ sagði Þórir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×