Handbolti

Harmur Egypta gæti orðið Ís­lendingum til happs

Valur Páll Eiríksson skrifar
Ahmed Hesham, Dodo, verður frá í næstu leikjum Egypta.
Ahmed Hesham, Dodo, verður frá í næstu leikjum Egypta. Ayman Aref/NurPhoto via Getty Images

Egyptar urðu fyrir blóðtöku fyrir komandi milliriðil með strákunum okkar. Mikilvægur leikmaður liðsins meiddist í góðum sigri gærkvöldsins.

Egyptar spiluðu hörkuvel gegn Króötum Dags Sigurðssonar í keppnishöllinni í Zagreb í gær og unnu fjögurra marka sigur, 28-24. Með því fóru þeir á topp milliriðls sem liðin munu deila með Íslandi og Slóveníu í vikunni.

Kvöldið gekk þó ekki áfallalaust fyrir þá egypsku. Vinstri skyttan Ahmed Hesham, gjarnan kallaður Dodo, fór frábærlega af stað í leik gærkvöldsins en í þann mund sem hann skoraði fjórða mark sitt úr jafnmörgum tilraunum meiddist hann á hné.

Dodo var studdur af velli og komið í ljós að hann mun missa af allri milliriðlakeppninni. Egyptar eru þegar án síns besta leikmanns, Yehia Elderaa, sem leikur með Aroni Pálmarssyni og Bjarka Má Elíssyni í Veszprem í Ungverjalandi. Þá er Hassan Kaddah, öflug vinstri skytta Kielce í Póllandi, einnig frá.

Egyptar spiluðu þó lungann úr leik gærkvöldsins án þeirra þriggja og sýndu að þeir eru engir aukvisar þrátt fyrir skörðin sem eru hoggin í þeirra lið.

Í kvöld kemur í ljós hvort Ísland eða Slóvenía fer að hlið Egyptalands á toppi milliriðilsins með fjögur stig. Ef Ísland vinnur í kvöld er næsti leikur gegn Egyptum á miðvikudaginn kemur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×