Handbolti

„Mér fannst Aron snúa al­gjör­lega okkar sóknar­leik við“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Pálmarsson fagnar sigrinum með liðsfélögum sínum í íslenska landsliðinu.
Aron Pálmarsson fagnar sigrinum með liðsfélögum sínum í íslenska landsliðinu. Vísir/Vilhelm

Varnarleikurinn og markvarslan fékk mikla athygli eftir sigurinn á Slóvenum í gærkvöldi en í Besta sætinu var einnig rætt um sóknarleik íslenska liðsins og innkomu fyrirliðans Arons Pálmarssonar um miðjan fyrri hálfleik.

Einar Jónsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson mættu til Stefáns Árna Pálssonar í Besta sætið og fóru yfir magnaðan sigur Íslands á Slóveníu á HM í handbolta.

Aron Pálmarsson byrjaði ekki leikinn en kom inn í sóknina um miðjan fyrri hálfleik.

„Þá vorum við ekkert búnir að vera neitt frábærir sóknarlega, alveg langt í frá,“ sagði Einar.

„Við náðum að refsa þeim en þeir náðu ekki að refsa okkur. Svo náum við fimmtán mínútna kafla, þessar síðustu fimmtán mínútur í fyrri hálfleiknum. Þá er sóknarleikurinn okkar frábær,“ sagði Einar.

Einar var mjög ánægður með hvernig Snorri Steinn Guðjónsson setti upp leikinn.

„Ég er hrikalega ánægður með hvernig Snorri setur upp leikinn. Það var greinilegt að þetta var nánast eftir klukku,“ sagði Einar.

„Eftir fimmtán mínútur átti Aron að koma inn og Gísli örugglega líka. Mér fannst Aron snúa algjörlega okkar sóknarleik við. Þetta var eins og svart og hvít,“ sagði Einar.

„Það kemur mikil ró og yfirvegun með Aroni í sóknarleik liðsins,“ sagði Stefán Árni.

„Þetta var bara alvöru fyrirliða Arons innkoma. Ég held að það hafi verið þrír stolnir boltar þar af tveir þarna í horninu. Hann setti þetta upp og það var svona ‚coolness' yfir þessu fyrir vikið,“ sagði Ásgeir.

„Ég hélt reyndar að hann myndi byrja með hann inn á. Ég var eiginlega handviss um það. Maður getur ekkert sagt því þetta svínvirkaði,“ sagði Ásgeir.

Það má hlusta á alla umfjöllun þeirra um leikinn hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×