Einar Jónsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson mættu til Stefáns Árna Pálssonar í Besta sætið og gerðu upp frammistöðu íslenska landsliðsins á HM í handbolta. Íslenska liðið hafnaði í níunda sæti á mótinu.
„Það var eitt í þessu viðtali við Gísla Þorgeir og ég veit ekki hvort að þetta sé eitthvað sem truflar einhvern annan en þetta truflar mig örlítið. Það er þegar það er sagt við Gísla fyrir leikinn á móti Argentínu: Hvenær viltu fara heima á morgun? Viltu fara til Magdeburgar á morgun?,“ sagði Stefán Árni Pálsson.
Þetta er bara HSÍ
„Já, þetta er bara HSÍ. Þeir eru bara svona,“ sagði Ásgeir Örn Hallgrímsson.
„Þetta er ekkert eðlilega skrýtið,“ sagði Stefán.
„Þeir voru að reyna að spara sér einhverjar krónur. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem við sjáum eitthvað taktleysi hjá HSÍ. Heldur betur ekki,“ sagði Ásgeir.
„Hefði þetta ekki farið í taugarnar á þér sem leikmaður fyrir síðasta leikinn á HM,“ spurði Stefán.
„Að sjálfsögðu hefði þetta farið í taugarnar á mér ef ég hefði verið spurður áður en það væri endanlega klárt að við værum að fara heim. Vonandi svaraði hann bara: Ég er að fara heim í fyrsta lagi á þriðjudaginn eða á miðvikudaginn,“ sagði Ásgeir.
Finnst það nú frekar taktlaust
„Ég er alveg sammála því. Þetta kemur fram hjá honum og væntanlega hefur einhver af hálfu HSÍ rætt þetta að minnsta kosti við hann. Kannski þá við væntanlega fleiri,“ sagði Einar Jónsson.
„Manni finnst það nú frekar taktlaust. Bíddu þá alla vega með það þangað til að þessi leikur er búinn. Kláraðu leikinn,“ sagði Einar.
„Króatarnir bara rétt unnu Slóvena. Það munaði ekki miklu,“ sagði Stefán.
„Klárum bara okkar leik. Svo getum við farið að taka þessa umræðu við leikmenn: Strákar við vitum hvernig staðan er. Við þurfum að tékka okkur út af hótelinu fyrir hádegi á morgun,“ sagði Einar.
Vitum bara hvernig fjárhagsstaðan er
„Ég held að það séu líka bara mótsreglur. Þá þarf sambandið að greiða aukalega fyrir það. Við vitum bara hvernig fjárhagsstaðan er. Það er líka verið að passa upp á þá hluti sem er bara jákvætt,“ sagði Einar.
„Þetta er týpískur hluti sem framkvæmdastjórinn á bara að undirbúa sjálfur inn á herbergi án þess að spyrja kóng né prest. Vera bara undirbúinn með þetta þegar leikurinn er búinn,“ sagði Ásgeir.
Það má finna þessa umræðu sem og fleiri atriði sem farið var yfir í uppgjörsþætti Besta sætisins á heimsmeistaramótinu. Hann má finna allan hér fyrir neðan.