Körfubolti

Ena Viso til Grinda­víkur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ena Viso skipti úr grænu yfir í gult.
Ena Viso skipti úr grænu yfir í gult. Körfuknattleiksdeild Grindavíkur

Kvennalið Grindavíkur hefur fengið mikinn liðstyrk en hin danska Ena Viso hefur samið við liðið og klárar tímabilið í Smáranum.

Ena Viso hefur verið í leiðtogahlutverki hjá Njarðvík síðustu ár en hætti óvænt hjá félaginu á dögunum. Nú nokkrum dögum hefur hún samið við Grindavík.

Viso er öflugur leikmaður á báðum endum vallarins sem var með 11,3 stig, 4,5 fráköst og 4,6 stoðsendingar að meðaltali í fimmtán leikjum með Njarðvík í vetur.

Hennar slökustu leikir í vetur voru þó á móti Grindavík en hún skoraði bara þrjú stig í fyrri leiknum og sjö stig í þeim síðari. Viso var með 5,0 stig í leik á móti Grindavík en 12,3 stig í leik á móti öðrum liðum deildarinnar.

„Hún bætist þá í hóp dönskumælandi leikmanna liðsins en líkt og Sofie hefur hún leikið reglulega með danska landsliðinu undanfarin ár,“ segir í frétt á miðlum Grindavíkur.

Grindvíkingar hafa gert fleiri breytingar á leikmannahóp kvennaliðsins undanfarna daga.

Bandaríski leikmaðurinn Alexis Morris og hin pólska Katarzyna Trzeciak yfirgáfu báðar félagið.

Í staðinn fyrir þær eru mættar hin bandaríska Daisha Bradford og hin spænska Mariana Duran.

Bradford skoraði 27 stig í útisigri á Tindastól í síðasta leik og Duran var með 7 stig, 6 stolna og 4 stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×