Umræðan um Hitler spannst í kjölfar þess að Mitchell og Roli Delgado, sem var með honum í hlaðvarpinu, töluðu um umdeilda handahreyfingu Elons Musk sem minnti á kveðju nasista.
Mitchell hrósaði Hitler og sagði að áður en hann byrjaði á eiturlyfjum hefði eflaust verið gaman að veiða með honum. Hann sagði jafnframt að Hitler hefði verið fínn gaur samkvæmt þeim upplýsingum sem hann hafi aflað sér.
Mitchell talaði á niðrandi hátt um gyðinga og samkynhneigða og sagði að Hitler hafi verið að reyna að hreinsa þýsku þjóðina með því að fjarlægja fólk sem var gyðingatrúar. Mitchell sagðist þó hvorki vera nasisti né hata gyðinga.
Dana White, forseti UFC, er meðal þeirra sem hafa fordæmt ummæli Mitchells. Hann sagðist hafa heyrt alls konar vitleysu um ævina en þetta væri það versta. White sagðist þó ekki ætla að refsa Mitchell fyrir ummælin.
Mitchell er í 13. sæti heimslistans í fjaðurvigt og hefur unnið sautján af tuttugu bardögum sínum.