Bíó og sjónvarp

Bauð Banda­ríkin vel­komin í hóp konungs­ríkja

Samúel Karl Ólason skrifar
John Oliver og Jon Stewart í gærkvöldi.
John Oliver og Jon Stewart í gærkvöldi.

John Oliver heimsótti læriföður sinn Jon Stewart í The Daily Show í gærkvöldi. Þar hlakkaði mjög í hinum breska Oliver sem var mættur til að bjóða Bandaríkjamenn velkomna í hóp konungsríkja.

Þetta var í enda langs innslags Stewarts í gær þar sem hann sakaði Donald Trump, forseta, um einræðistilburði. Þá stakk Oliver kollinum inn í sett og lét Stewart heyra það.

„Ertu mættur til að bjóða Bandaríkjunum visku þína og ráðgjöf‘“ spurði Stewart. Oliver sagði svo ekki vera. Hann væri þarna til að hlakka yfir óförum þeirra.

Oliver sagði Bandaríkjamenn hafa haft smá gaman í gegnum árin, með tilraunum sínum með lýðræði. Þeir hefðu barist af mikilli hörku til að slíta sig frá breska konungsríkinu.

„Það sem ég vil segja er að þið sögðuð öllum að þið yrðuð öðruvísi. Þið ætluðuð ekki að verða eins og vondi pabbi ykkar, sem var svo hræðilegur við ykkur í æsku. Við fylgdumst með ykkur, leyfðum ykkur að verja táningsárunum í fáránlegar tilraunir með skiptingu ríkisvalds, því innst inni, vissum við alltaf að þegar þessari vitleysu væri lokið myndu þið snúa aftur,“ sagði Oliver.

„Það sem ég er að segja, leyfið mér að vera fyrstur til að bjóða Bandaríkin velkomin á konungstímabilið.“

Hann sagði Stewart að streitast ekki á móti, heldur taka því fagnandi. Konungar kæmu hlutunum í verk, þó það væru ekki alltaf hlutir sem fólk sæktist eftir.

Þá spurði Olivert hvort Stewart hefði verið að fylgjast með því sem Bandaríkjamenn hefðu verið að gera undanfarna áratugi. Fyrir ríki sem vildi ekki vera heimsveldi væru Bandaríkin merkilega góð í að gera heimsveldahluti, ef svo má segja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.