Íslenski boltinn

Herra Fjölnir tekur við Fjölni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gunnar Már Guðmundsson er kominn aftur heim í Grafarvoginn.
Gunnar Már Guðmundsson er kominn aftur heim í Grafarvoginn. Fjölnir

Gunnar Már Guðmundsson hefur verið ráðinn nýr þjálfari meistaraflokks karla hjá Fjölni og fær það verkefni að koma liðinu aftur í hóp þeirra bestu.

„Knattspyrnudeild Fjölnis tilkynnir með mikilli ánægju að Gunnar Már Guðmundsson, oft kallaður „Herra Fjölnir“, hefur verið ráðinn þjálfari meistaraflokks karla,“ segir á miðjum Fjölnis.

Gunnar Már er næst leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins og hefur spilað með Fjölni í öllum deildum landsins.

Hann var líka þjálfari meistaraflokks kvenna hjá Fjölni 2016–2017, aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla frá 2018 til 2020 sem og að vera yfirþjálfari yngri flokka.

Síðastliðið ár þjálfaði hann Þrótt Vogum með góðum árangri.

„Það er sérstaklega ánægjulegt að tilkynna heimkomu „Herra Fjölnis“ nú þegar félagið fagnar 37 ára afmæli sínu. Knattspyrnudeild Fjölnis þakkar stjórn Þróttar Vogum fyrir gott samstarf,“ segir á miðjum Fjölnis.

Fjölnir endaði í þriðja sæti í B-deild karla á síðustu leiktíð en tapaði á móti Aftureldingu í umspili liða í öðru til fimmta sæti um eitt laust sæti í Bestu deildinni. Fjölnir hefur ekki spilað í A-deildinni frá 2020.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×