Handbolti

Gísli stór­kost­legur í toppslagnum

Sindri Sverrisson skrifar
Gísli Þorgeir Kristjánsson var í aðalhlutverki hjá Magdeburg í gríðarlega mikilvægum sigri í dag.
Gísli Þorgeir Kristjánsson var í aðalhlutverki hjá Magdeburg í gríðarlega mikilvægum sigri í dag. EPA-EFE/Piotr Polak

Gísli Þorgeir Kristjánsson var í algjöru aðalhlutverki á spennandi lokakafla í toppslag Magdeburg og Melsungen í þýsku 1. deildinni í handbolta í dag. Magdeburg vann leikinn 29-28.

Elvar Örn Jónsson og félagar í Melsungen eru enn á toppi deildarinnar, með 32 stig eftir 19 leiki, en aðeins tveimur stigum á undan Hannover og fjórum á undan Füchse Berlín og Kiel sem bæði eru að spila þessa stundina.

Magdeburg er með í titilbaráttunni því liðið er nú með 23 stig eftir 16 leiki og hefur því til að mynda aðeins „tapað“ þremur stigum meira á tímabilinu en Melsungen.

Magdeburg hafði frumkvæðið lengst af í leiknum í dag en spennan var hins vegar mikil.

Elvar jafnaði metin í 25-25 þegar fjórar mínútur voru eftir en Gísli kom þá Magdeburg yfir strax í kjölfarið, með tveimur góðum mörkum í röð. Hann skoraði svo þriðja markið og kom Magdeburg í 28-26 tveimur mínútum fyrir leikslok, og átti línusendingu í næstu sókn þegar Magnus Saugstrup kom Magdeburg í 29-27 og aðeins mínúta eftir.

Melsungen minnkaði fljótt muninn en Magdeburg tókst að láta tímann renna út og tryggja sér eins marks sigur.

Gísli var næstmarkahæstur hjá Magdeburg með sjö mörk, á eftir Matthias Musche sem skoraði níu, en Gísli var jafnframt með flestar stoðendingar eða sex talsins og ekkert marka hans kom af vítalínunni.

Elvar Örn skoraði fimm mörk fyrir Melsungen og var meðal markahæstu manna en Elvar mun svo skipta yfir til Magdeburg í sumar. Arnar Freyr Arnarsson er enn að glíma við meiðslin sem kostuð hann HM, rétt eins og Ómar Ingi sem var ekki með Magdeburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×