Hætti við að dæma víti og United slapp með jafn­tefli

Andy Madley dæmdi víti á Manchester United en hætti svo við eftir að hafa skoðað atvikið í skjánum.
Andy Madley dæmdi víti á Manchester United en hætti svo við eftir að hafa skoðað atvikið í skjánum. Getty/Robbie Jay Barratt

Everton og Manchester United gerðu 2-2 jafntefli í hádegisleiknum í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Everton virtist vera með sigurinn í höndunum þegar United lifnaði allt í einu við á síðustu tuttugu mínútunum. Síðustu tuttugu mínútur leiks og uppbótatíminn varð síðan að mikilli rússíbanaferð.

Everton hélt reyndar að liðið væri að fá vítaspyrnu í uppbótatíma þegar dómarinn benti á punktinn. Andy Madley dómari fór þá í skjáinn og hætti við að dæma vítið. Taldi að Ashley Young hafi verið ýkja brotið. Allir tengdir Everton voru mjög ósáttir með það.

Everton er því áfram einu stigi á undan Manchester United en United menn rétt sluppu við að tapa þriðja deildarleiknum í röð.

Everton menn hafa verið á miklu skriði síðan David Moyes tók við og þeir skoruðu tvívegis í fyrri hálfleiknum. Gestirnir úr United björguðu andlitinu með góðum endakafla eftir mjög dapra frammistöðu fram eftir leik.

Beto skoraði fyrsta marki leiksins og kom Everton í 1-0 á 19. mínútu eftir að hafa fengið boltann á markteignum eftir hornspyrnu. Everton menn unnu nokkra skallabolta í og við teiginn og boltinn datt fyrir Beto sem skaut boltanum í jörðina og í markið. Það var spurning um rangstöðu og Varsjáin var lengi að skoða markið. Það stóð hins vegar.

Fimmtán mínútum síðar var staðan orðin 2-0. Everton náði hraðri og góðri sókn sem endaði með að Abdoulaye Doucouré skallaði boltann í markið af stuttu færi eftir að André Onana varði áður skot frá Beto.

Fyrri hálfleikurinn var slakur hjá gestunum og áframhald á því vonleysi sem hefur einkennt liðið undanfarnar vikur.

Staðan var slæm í hálfleik en það breyttist ekki mikið í þeim síðari. United liðið náði ekki skoti fyrr en á 72. mínútu þegar liðið fékk aukaspyrnu fyrir utan teig. Bruno Fernandes skoraði með frábæru skoti beint úr aukaspyrnu og gaf United mönnum líflínu. Mikil gæði í því skoti.

Þetta var fyrsta mark United liðsins í ensku úrvalsdeildinni í meira 264 mínútur. Það kveikti heldur betur í United mönnum sem höfðu verið mjög daufir í seinni hálfleiknum.

Allt breyttist á nokkrum mínútum og því United jafnaði metin á 80. og aftur kom mark eftir aukaspyrnu. Manuel Ugarte fékk þá boltann eftir að Everton skallaði út aukaspyrnu Bruno og sá úrúgvæski opnaði markareikning sinn fyrir United.

Í lokin reyndu United menn að sækja sigurinn en þeir voru líka heppnir að vítaspyrnudómurinn stóð. 2-2 jafntefli niðurstaðan sem eru góð úrslit fyrir Manchester United miðað við það hversu illa þetta leit út um miðjan seinni hálfleik. Heimamenn í Everton gráta samt örugglega tvö töpuð stig.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira