Leikjavísir

Avowed: Í senn hefð­bundinn og fram­úr­skarandi hlut­verka­leikur

Samúel Karl Ólason skrifar
Av2
Obsidian Entertainment

Ævintýraleikurinn Avowed kemur skemmtilega á óvart, þó hann sé í grunninn mjög beisik. Sagan er einkar áhugaverð og bardagakerfið skemmtilegt, þó það sé einfalt.

Avowed gerist í söguheimi ævintýra/hlutverkaleikjanna Pillars of Eternity, nánar tiltekið á landsvæði sem kallast The living lands. Þar herjar nokkurskonar Last of us plága herjar á íbúa, sveppasýking sem gerir þá óða og lætur þá ráðast á aðra ósmitaða.

Spilarar setja sig í spor sérstaks erindreka keisara sem sendur er til nýlendu keisaraveldisins til að bjarga málunum en aðstæður reynast töluvert flóknara en menn héldu. Það er mikil spenna vegna nýlendustefnunnar, faraldursins og ýmissa annarra ástæðna.

Erindrekarinn er einn af hinum svokölluðu „godlike“ en það eru einstaklingar sem hafa verið blessaðir af einhverjum af fjölmörgum guðum söguheimins. Spilarar fá nokkuð mikið frelsi til að móta söguhetjuna og hvernig hún hagar sér í bardögum.

Ég byrjaði á að henda í galdrakarl og hef verið að spila sem slíkur. Avowed gefur manni fjölmörg tækifæri til að stunda hlutverkaleik, eins og þessir leikir eiga að vera. Maður mótar söguhetjuna ítrekað í gegnum svör við spurningum annarra í leiknum og þessi svör geta sömuleiðis haft áhrif á framvindu sögu leiksins.

Margar ákvarðanir sem virðast augljóslega góðar geta bitið mann í rassgatið, sem er eitthvað það allra skemmtilegasta við svona leiki. Þetta leiðir líka til þess að maður setur sig meira inn í heiminn, þar sem maður getur haft mikil áhrif á hann.

Á sama tíma tekur leikurinn sig ekki of alvarlega, sem er í takt við aðra leiki Obsidian, og þetta helst allt frekar vel í hendur.

Obsidian Entertainment

Fjölbreytt fólk og fjölbreytt vopn

Þá er ekki bara hægt að spila sem galdrakarl, heldur einnig sem hefðbundinn stríðskarl eða bogakarl/laumupúki. Einnig er hægt að blanda þessu öllu saman en ég hef aldrei verið mikið fyrir það í hlutverkaleikjum. Ég gæti verið kallaður pjúristi í þeim efnum.

Sem Godlike hefur söguhetjan einnig aðgang að nokkrum sérstökum hæfileikum sem maður lærir gegnum spilun leiksins.

Í þessum söguheimi má finna allskonar fólk og kvikyndi, eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi.

Þessi söguheimur Pillars of Eternity er áhugverður þegar kemur að vopnum. Þau eru frekar umfangsmikil en auk þess að nota galdra eru einnig notuð hefðbundin vopn eins og sverð, axir og spjót. Þá eru einnig bogar, skammbyssur og rifflar sem hægt er að nota í leiknum.

Sem galdrakarl hef ég að mestu notast við galdrasprota og galdrabók, sem inniheldur nokkra góða galdra, en einnig get ég tekið upp skammbyssu þegar þörf er á.

Það er ekki að ósekju að leiknum hefur mikið verið líkt við Skyrim enda hefur Obsidian áður unnið með Bethesda og þá sérstaklega þegar fyrrnefnda fyrirtækið gerði Fallout: New Vegas, sem er líklega besti Fallout-leikurinn.

Obsidian Entertainment

Avowed er gerður með Unreal 5 og lítur nokkuð vel út. Heimurinn er líka vel hannaður og það er merkilega skemmtilegt að spóka sig um, því hægt er að finna ýmsa merkilega hluti, vopn og shit til að uppfæra vopn, svo eitthvað sé nefnt.

Maður finnur einnig fólk víðsvegar um heiminn sem geta gefið manni ýmis verkefni en ég hef verið nokkuð ánægður með þau hingað til. Þetta eru oft verkefni sem snúast eingöngu um að fara þangað, sækja þetta eða drepa þennan en þau eru oft dýpri en það og áhugaverðari fyrir vikið. Það er líka gaman að uppgötva nýja hluti í söguheiminum.

Söguhetjan safnar líka vinum í kringum sig, sem berjast með honum. Maður uppgötvar baksögu þeirra og lærir að nota þá betur. Þetta er allt voðalega hefðbundið hlutverkaleikjadót.

Garrus er samt þarna! Það er mjög jákvætt. Þeir vita sem vita.

Obsidian Entertainment

Samantekt-ish

Ég er nokkuð seinn í þetta tiltekna partí þar sem ég hef ekki haft allt of mikinn tíma til að spila undanfarið en Avowed hefur komið mér skemmtilega á óvart. Þetta er frekar hefðubundinn og að sumu leyti einfaldur hlutverkaleikur en það þarf ekki að vera slæmt og er það ekki.

Þessi einfaldleiki gerir það að verkum að manni finnst ekki of miklum tíma varið í kjaftæði. Margir nútímahlutverkaleikir eru stútfullir af því sem eingöngu er hægt að kalla „grind“. Það á ekki við Avowed og er leikurinn betri fyrir vikið.

Bardagar eru fjölbreyttir og það getur verið mjög gaman að gera tilraunir með hvað virkar og hvað ekki.

Þó þessi leikur gerist í söguheimi Pillars of Eternity er það ekki slæmt fyrir þá sem hafa ekki spilað þá leiki. Ég hef aðeins gluggað í þá en lítið meira en það. Mér hefur ekki þótt erfitt með að átta mig a sögusviðinu þess vegna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.