Lífið

Setja markið á 29. sætið

Atli Ísleifsson skrifar
VÆB-bræður, Hálfdán Helgi og Matthías Davíð, eru enn að átta sig á sigri laugardagskvöldsins.
VÆB-bræður, Hálfdán Helgi og Matthías Davíð, eru enn að átta sig á sigri laugardagskvöldsins. Vísir/Hulda Margrét

Sigurvegarar Söngvakeppni sjónvarpsins eru alsælir með sigur laugardagskvöldsins, og eru enn að átta sig á því að þeir verði fulltrúar Íslands í Eurovision. Aðalmarkmið þeirra er að gleðja þjóðina og gera hana stolta.

Vésteinn Örn Pétursson fréttamaður hitti VÆB-bræður í húsakynnum Ríkisútvarpsins í gær, en þeir undirbúa nú för sína til Basel í Sviss þar sem þeir munu stíga á stóra sviðið á fyrra undanúrslitakvöldi keppninnar, þriðjudaginn 13. maí.

Þeir bræður fluttu lagið Róa sem þeir sömdu sjálfir ásamt Inga Bauer.

„Þetta er ólýsanlegt tilfinning, þetta er ógeðslega gaman. Við erum ógeðslega þakklátir,“ segir Matthías Davíð Matthíasson.

Hálfdán Helgi segist sömuleiðis enn reyna að skilja að þeir hafi borið sigur úr býtum. „Ég er ekki alveg búinn að meðtaka þetta.“

Lagið verður flutt á íslensku þegar til Sviss verður komið. „Einn sem lýgur ekki. Það er gamli góði vinur okkar, tölfræðin, út af því að 100 prósent af lögum sem hafa farið út á íslensku hafa komist í úrslitakeppnina frá árinu 2000.“

Nú taka við stífar æfingar og tónleikahald þar á milli. Samkvæmt veðbönkum eru takmarkaðar líkur á að Ísland standi uppi sem sigurvegari Eurovision í ár, eða um eitt prósent. Strákarnir láta það þó ekki trufla sig.

„Ég veit ekki hvar við erum núna. Við erum númer þrjátíu eða eitthvað,“ segir Hálfdán.

„Markmið okkar er að vera kannski númer 29,“ segir Matthías. Að hækka sig um eitt sæti væri bara nokkuð gott.

Strákarnir eru þó á því að aðalmarkmiðið sé að hafa gaman af verkefninu. „Bara gera alla stolta, kæta fólkið,“ segir Matthías.

„Mig langar bara gera alla stolta og að gleðja og hafa ógeðslega gaman,“ segir Hálfdán.


Tengdar fréttir

Ísland í næstneðsta sæti veðbankanna

Ísland þykir næstólíklegast landið til að sigra Eurovision í ár samkvæmt veðbönkum, þar sem við sitjum í 36. sæti af 37. Sigurlíkur eru taldar eitt prósent.

VÆB keppa fyrir hönd Íslands í Eurovision

VÆB eru sigurvegarar Söngvakeppninnar og munu flytja lagið „Róa“ sem framlag Íslands í Eurovision árið 2025. Þeir hlutu flest atkvæði hjá bæði íslensku þjóðinni og alþjóðlegri dómnefnd.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.