Körfubolti

Sex fara fyrir Ís­land á sitt fyrsta stór­mót

Sindri Sverrisson skrifar
Kristinn Pálsson er væntanlega á leið á sitt fyrsta stórmót. Tryggvi Hlinason þekkir tilfinninguna en er núna kominn í mikið stærra hlutverk en 2017.
Kristinn Pálsson er væntanlega á leið á sitt fyrsta stórmót. Tryggvi Hlinason þekkir tilfinninguna en er núna kominn í mikið stærra hlutverk en 2017. vísir/Anton

Þrír leikmenn í íslenska landsliðinu í körfubolta gætu verið á leiðinni á sitt þriðja stórmót í ágúst þegar Ísland mætir til leiks á EuroBasket, eða EM, eftir að hafa tryggt sig inn á mótið með sigri gegn Tyrkjum í gærkvöld. Ljóst er að hið minnsta sex Íslendingar fara á sitt fyrsta stórmót.

Martin Hermannsson, Ægir Þór Steinarsson og Haukur Helgi Pálsson voru allir í tólf manna hópnum sem fór á fyrsta stórmót Íslands, EM í Þýskalandi árið 2015.

Úr þessum hópi frumkvöðla eru sex leikmenn hættir, þeir Axel Kárason, Jakob Örn Sigurðarson, Jón Arnór Stefánsson, Helgi Már Magnússon, Logi Gunnarsson og Pavel Ermolinskij.

Hörður Axel Vilhjálmsson, Hlynur Bæringsson og Ragnar Ágúst Nathanaelsson voru í hópnum og eru enn að spila en hafa ekki verið í landsliðinu að undanförnu.

Síðast þegar Ísland fór á EM, árið 2017, voru þeir Martin, Ægir og Haukur áfram í hópnum. Elvar Már Friðriksson, Tryggvi Snær Hlinason og Kristófer Acox voru þá einnig með. Kristófer er sá eini þeirra sem var ekki með í að tryggja EM-sætið í gær, eftir að hafa komist á ferðina í síðasta mánuði eftir langvinn meiðsli.

Hlynur Bærings, Hörður Axel, Jón Arnór, Logi, Pavel og Brynjar Þór Björnsson voru einnig í hópnum árið 2017.

Það verður svo að koma í ljós hvaða tólf leikmenn Craig Pedersen tekur með á sitt þriðja stórmót í ágúst og hvar Ísland mun spila.

Tólf manna hópur Íslands gegn Tyrkjum í gær:

  • Bjarni Guðmann Jónsson
  • Elvar Már Friðriksson
  • Haukur Helgi Pálsson
  • Hilmar Smári Henningsson
  • Kári Jónsson
  • Kristinn Pálsson
  • Martin Hermannsson
  • Orri Gunnarsson
  • Sigtryggur Arnar Björnsson
  • Styrmir Snær Þrastarson
  • Tryggvi Snær Hlinason
  • Ægir Þór Steinarsson

Jón Axel Guðmundsson gat ekki spilað í gær vegna meiðsla og kom Kári Jónsson inn í hans stað. Jón Axel og Kári voru báðir í hópnum sem vann Ítalíu í nóvember en Martin var þá meiddur. 

Kristófer Acox gerir einnig tilkall til sætis í hópnum nú þegar hann er heill heilsu. Þá voru Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, Sigurður Pétursson og Hjálmar Stefánsson allir í hóp í að minnsta kosti einum leik í undankeppni EM. Yngri leikmenn á borð við Tómas Val Þrastarson og Almar Orra Atlason, sem spila í bandaríska háskólakörfuboltanum, horfa eflaust einnig til mótsins í ágúst, ásamt fleirum.

EM fer fram í fjórum borgum víðs vegar um Evrópu. Einn riðill verður spilaður í Tampere í Finnlandi, annar í Riga í Lettlandi, þriðji í Katowice í Póllandi og fjórði í Limassol á Kýpur. Dregið verður í riðla 27. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×