Handbolti

„Þetta bara svíngekk“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Pétur Árni Hauksson skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna í kvöld.
Pétur Árni Hauksson skoraði fimm mörk fyrir Stjörnuna í kvöld. Vísir/Vilhelm

Pétur Árni Hauksson lék stórt hlutverk í liði Stjörnunnar er Stjörnumenn tryggðu sér sæti í úrslitum Powerade-bikars karla í handbolta með fimm marka sigri gegn ÍBV í kvöld, 34-29.

„Tilffiningin er náttúrulega bara geggjuð. Við erum búnir að fara fjórum sinnum á fimm árum eða eitthvað í undanúrslit og alltaf tapað. Það var komið að þessu, loksins,“ sagði Pétur í viðtali í leikslok.

Stjörnumenn stungu af í seinni hálfleik, eftir gríðarlega jafnan fyrri hálfleik. Pétur skoraði mark á lokasekúndum fyrri hálfleiks til að koma Stjörnunni tveimur mörkum yfir og hann segir að liðið hafi tekið meðbyrinn með sér í seinni hálfleik.

„Auðvitað tókum við meðbyrinn með okkur og við vissum það bara á móti þessari umtöluðu Eyjageðveiki að þá þarf maður bara að koma með sama orkustig til að eiga möguleika og við gerðum það heldur betur í kvöld.“

Þá segir hann að það hafi verið liðsheildin sem skóp sigur kvöldsins.

„Þetta var bara liðssigur og það voru allir að skila sínu. Við vorum með massíva vörn og fengum góða markvörslu. Svo leiddi eitt bara af öðru og við sigldum þessu heim.“

„Við erum bara að spila vel fyrir hvorn annan og það gekk margt upp í kvöld. Hrannar og Arnar voru búnir að leggja þetta vel upp fyrir okkur og það bara svíngekk.“

Hann segist þó ekki vita hvað dagarnir fram að úrslitaleiknum muni bera í skauti sér.

„Ég veit það ekki einu sinni. Það er ábyggilega fundur á morgun og létt recovery. Svo er bara að undirbúa sig fyrir Fram eða Aftureldingu,“ sagði Pétur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×