Innherji

Vaxtalækkun í takt við væntingar en nefndin telur enn þörf á „þéttu“ að­haldi

Hörður Ægisson skrifar
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar. Vextir Seðlabankans hafa núna lækkað um 150 punkta frá því að vaxtalækkunarferlið hófst í október á liðnu ári.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri og formaður peningastefnunefndar. Vextir Seðlabankans hafa núna lækkað um 150 punkta frá því að vaxtalækkunarferlið hófst í október á liðnu ári. Vísir/Vilhelm

Samstaða var á meðal nefndarmanna peningastefnunefndar Seðlabankans að lækka vexti um 25 punkta, sem var í samræmi við væntingar greinenda og markaðsaðila, en samtímis háu raunvaxtastigi er verðbólgan að hjaðna á breiðum grunni og útlit fyrir að hún minnki áfram á næstu mánuðum. Nefndin undirstrikar hins vegar sem fyrr að áfram verði þörf á „þéttu taumhaldi peningastefnunnar.“

Eftir vaxtaákvörðunina í morgun standa meginvextir bankans núna í 7,75 prósent – þeir hafa núna lækkað um samanlagt 150 punkta frá því að vaxtalækkunarferli hófst í október í fyrra – en í yfirlýsingu peningastefnunefndar er tekið fram að allir fimm nefndarmenn hafi studd ákvörðun um 25 punkta lækkun.

Peningastefnunefndin bendir á að verðbólgan hafi haldið áfram að hjaðna, en hún lækkaði úr 4,6 í 4,2 prósent frá síðasta fundi snemma í febrúar og hefur ekki lægri í fjögur ár. Þá er bætt við að sú hjöðnun sé á „breiðum grunni“ og sömuleiðis sé undirliggjandi verðbólga einnig að minnka. Spár gera ráð fyrir að verðbólgan muni halda áfram að síga niður á komandi mánuðum.

Umfang vaxtalækkunarinnar er sem fyrr segir í takt við væntingar en mikill meirihluti þátttakenda í könnun Innherja, sem var birt síðasta mánudag, taldi að vextirnir myndu lækka um 25 punkta. Spár allra greiningardeilda bankanna hljóðuðu sömuleiðis upp á 25 punkta lækkun.

Í rökstuðningi margra þátttakenda í könnun Innherja var bent á að nánast óbreytt raunvaxtaaðhald frá síðasta fundi myndi þýða að peningastefnunefndin hefði aðeins svigrúm til að lækka vextina um 25 punkta í þetta sinn, þar sem myndarleg hjöðnun verðbólgu ætti eftir að vega þyngra en óvænt hækkun verðbólguvæntinga heimila.

Fremur hlutlaus tónn er í yfirlýsingu peningastefnunefndar í morgun og ljóst að framhaldið mun sem fyrr velta á þróun efnahagsumsvifa hverju sinni, einkum hvernig tekst til í að ná niður verðbólgu og verðbólguvæntingum. Þannig er yfirlýsingin hjá nefndinni nánast samhljóða þeirri sem birtist eftir síðasta fund í febrúar, enda þótt lögð sé meiri áhersla á þá „miklu óvissu“ sem er í alþjóðlegum efnahagsmálum og minnt á að verðbólguvæntingar séu enn yfir markmiði.

Peningastefnunefndin segir að áfram sé að hægja á vexti eftirspurnar í takt við þétt taumhald peningastefnunnar og spennan í þjóðarbúinu í rénun. Að sama skapi er að draga úr umsvifum á húsnæðismarkaði. „Hátíðnivísbendingar gætu þó bent til þess að neysluútgjöld heimila hafi aukist á ný. Þá mælist enn mikil hækkun launakostnaðar og verðbólguvæntingar eru áfram yfir markmiði,“ útskýrir nefndin.

Þá bætir hún við að þótt verðbólga hafi hjaðnað og verðbólguvæntingar lækkað síðustu misseri er verðbólguþrýstingur enn til staðar. „Það kallar á áframhaldandi þétt taumhald peningastefnunnar og varkárni við ákvarðanir um næstu skref. Við bætist mikil óvissa í alþjóðlegum efnahagsmálum.“

Vísbendingar eru um að krafturinn í þjóðarbúinu sé meiri en bráðabirgðatölur þjóðhagsreikninga gefa til kynna.

Skilaboð um að áfram sé þörf á „þéttu taumhaldi“ þýðir að peningastefnunefndin mun horfa til þess að raunstýrivaxtastigið verði sem fyrr í kringum fjögur prósent, miðað við meðaltal ólíkra mælikvarða á verðbólgu og verðbólguvæntingum.

Í lok yfirlýsingarinnar er undirstrikað, líkt og áður, að mótun peningastefnunnar næstu misseri muni sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.

Næsta fundi peningastefnunefndar er eftir ríflega tvo mánuði, en hann mun fara fram miðvikudaginn 21. maí næstkomandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×