Lífið

Fann ástina á Prikinu

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Rapparinn Birnir er viðmælandi í Einkalífinu.
Rapparinn Birnir er viðmælandi í Einkalífinu. Vísir/RAX

„Það er stórkostlegt að vera faðir, það stórkostlegasta sem hefur komið fyrir mig. Ég man bara ekkert hvernig lífið mitt var áður en ég átti barn,“ segir rapparinn Birnir sem er viðmælandi í Einkalífinu.

Hér má sjá viðtalið við Birni í heild sinni:

Klippa: Einkalífið - Birnir Sigurðarson

Mikilvægt að segja satt í listsköpuninni

Birnir Sigurðarson er fæddur árið 1996 og var rúmlega tvítugur þegar hann skaust upp á stjörnuhimininn hérlendis með rappsmellnum Ekki Switcha

Hann hefur komið víða að í íslensku tónlistarlífi, unnið með ótal listamönnum á borð við Herra Hnetusmjör, Gusgus, Pál Óskar og Bríeti en hann og sú síðastnefnda unnu nýverið til tvennra verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum fyrir plötuna 1000 orð. Það er alveg ljóst að Birnir er rétt að byrja.

Textar hans eru gjarnan draumkenndir og hráir í bland og hann er óhræddur að opna á erfiða lífsreynslu.

„Mér finnst alltaf smá stressandi að gefa út lag. Það er samt gott, það er merki að það sé á góðum stað og að maður sé að opna á eitthvað. Mér finnst það alltaf gott merki.

Þetta skiptir mig svo miklu máli. Til þess að ég geti notið þess að gera tónlist þá þarf að vera einhver kjarnasannleikur í þessu. Þú ert að elta eitthvað, þróa eitthvað, vinna í stórum hugmyndum og tala um steiktar tilfinningar. Þá þarf maður að segja satt, það þarf að vera eitthvað fútt í þessu.“

Gat alveg eins bætt við sig góðum venjum

Birnir byrjaði fljótt að koma fram víða um land og gaf út plötuna Matador árið 2018. Hann hélt sig frá sviðsljósinu um tíma og kom svo með stóra endurkomu þegar hann gaf út plötuna Bushido. Þar fer hann inn á hráa og berskjaldaða staði í rappinu og ræðir opinskátt um fíknina sem hann glímdi við. Aðspurður hvernig honum finnist að ræða það í dag segir hann:

„Það er ekkert mál að tala um það, mér finnst það ótrúlega „basic“. En Ísland elskar sneri við blaðinu söguna. Það eru svo margir í kringum mig sem hafa farið í meðferð og hafa verið að glíma við fíknivanda í alls konar formi. Mér finnst ekkert meira „basic“ en að fara í meðferð. Þetta hættir að vera eitthvað viðkvæmt, allir eru með eitthvað sem þeir glíma við.“

Hann segist einfaldlega hafa áttað sig á því að þetta gengi ekki lengur og fór því í meðferð til Svíþjóðar.

„Til að gera það sem ég vil gera og vera eins og ég vil vera þá varð maður að taka ákvörðun. Kötta á eitthvað og opna á eitthvað nýtt. Það var ekkert flóknara en það. Þú gerir þér grein fyrir því að þetta gengur ekki, tekur ákvörðun og færð viðeigandi hjálp. Það skiptir öllu máli að fá hjálp því þú gerir ekki neitt af þessu einn. Þetta er ákvörðun finnst mér. Svo er það bara að viðhalda því.

Maður er hvort sem er alltaf að breytast, maður getur alveg eins bætt við sig einhverjum góðum venjum.“

Hann segist tvímælalaust geta tengt mörg lög sín við ákveðin tímabil.

„Maður er alltaf að endurspegla á það sem er í gangi núna. Þess vegna er svo skrýtið að hlusta á einhver lög sem maður gerði einhvern tímann og finna að ég er ekki á þeim stað núna.“

Föðurhlutverkið verðmætast

Birnir og sambýliskona hans Vaka eignuðust sitt fyrsta barn seint árið 2023 og segir Birnir að upplifunin sé engri lík.

„Þetta er mesta snilld í heimi og ég þekki ekki neitt annað núna fattarðu. Það er stórkostlegt og maður fagnar því. Pælingar eins og að vera ógeðslega þreyttur eða illa sofinn, það bara skiptir ekki máli þegar maður setur það í eitthvað samhengi.“

Birnir er óhræddur við að þroskast og þróast, bæði í listinni og í lífinu.

„Það hjálpar mér klárlega í föðurhlutverkinu að vera í einhvers konar sjálfsskoðun. Þú þarft að vera meðvitaður um hvað er í gangi hjá þér hverju sinni. Þegar barnið þitt er að gráta á nóttunni þá er það ekki að gera þér lífið leitt, þau eru að eiga erfitt. Þannig að vera meðvitaður um það, það er ótrúlega hjálplegt og þá geturðu nálgast allt í aðeins meiri ró.“

Þroski og þakklæti

Mikil sjálfsvinna hefur greinilega skilað sér hjá listamanninum.

„Ég á mjög heiðarlegt samband við sjálfan mig. Ef ég fer eitthvað út af sporinu á ég vini og fjölskyldu sem „checka“ mig. Ég býð það bara velkomið og ég á mjög gott samband við mitt fólk.

Ég held að maður þroskist í gegnum allt og þá fær maður að vera þakklátari. Auðvitað getur maður verið gramur eða pirraður yfir einhverju en svo er svo gott að fatta að sumt kemur mér ekkert við. Þetta er smá val, ég sé það þannig.

Auðvitað er ég ekki að segja að maður eigi að sleppa tökunum á öllu, heldur að tileinka sér rólegt viðmót. Reiði er mjög eðlileg tilfinning, eins og sorg, svekk, gleði og allt þetta.“

Hann segist algjörlega leyfa sér að fara inn í allar tilfinningarnar en hafi tileinkað sér að flýta sér ekki að bregðast við þeim.

„Maður má leyfa hlutunum að koma, skoða þá og skanna og svo bregðast við. Stundum þarf maður bara fimm mínútur til þess að fá að hugsa eitthvað og melta það.

Ég skil líka að það eru hlutir sem ég hef stjórn á og svo eru hlutir sem ég hef ekki stjórn á. Þegar þú sleppir tökum á því sem þú hefur ekki stjórn á þá ertu bara í fínum málum finnst mér. 

Ég hef til dæmis stjórn á því hversu mikið ég ferð í stúdíóið og hvernig ég bregst við í umferðinni. En þú getur ekki haft stjórn á því hvernig annað fólk hagar sér. Þegar þú finnur þetta losnarðu við svo mikinn kvíða,“ segir Birnir.

Varð að fá gigg á Prikinu

Birnir og Vaka sambýliskona hans hafa þekkst lengi og verið saman í mörg ár. 

„Við vissum af hvort öðru lengi og kynntumst einhvern tíma á Prikinu, hengum þar saman í fyrsta skipti. Svo bauð hún mér í afmælið sitt, við byrjuðum saman og eigum barn í dag.“

Þau eru ófá pörin í Reykjavík sem eiga sér einhverja ástarsögu af Prikinu. 

„Ég á einmitt verk, texti þar sem stendur „Ég fann ást á Prikinu“. Það á við svo margt hjá mér líka,“ segir Birnir og vísar til margra ógleymanlegra gigga á þessum vinsæla stað. 

„Það var ótrúlega mikilvægt þegar maður var að byrja að fá gigg á Prikinu. Ég man þegar ég var að hafa áhyggjur af því hvort ég myndi ekki örugglega ná því.  Það fór allt í gegn þar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.