Sport

Fyrsta konan sem verður for­seti Alþjóðaólympíu­nefndarinnar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kirsty Coventry í pontu eftir að hún var kjörin næsti forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar.
Kirsty Coventry í pontu eftir að hún var kjörin næsti forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar. afp/Fabrice COFFRINI

Kirsty Coventry frá Simbabve hefur verið kosin forseti Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC). Hún verður fyrsta konan til að gegna því embætti.

Meðlimir IOC kusu eftirmann Thomas Bach í Grikklandi í dag. Sjö voru í framboði og varð Coventry hlutskörpust. Hún hefur verið meðlimur í IOC í tólf ár.

Auk þess að verða fyrsta konan til að vera forseti IOC verður Coventry sú fyrsta frá Afríku til að gegna þessu embætti. Þá verður hin 41 árs Coventry yngsti forseti IOC frá því að franski baróninn Pierre de Coubertin, upphafsmaður Ólympíuleikanna, var forseti í kringum aldamótin 1900.

Coventry tekur við forsetastöðunni 24. júní og er kjörtímabilið átta ár. Hún getur síðan sóst eftir endurkjöri til fjögurra ára að þeim tíma liðnum.

Coventry er fyrrverandi afrekskona í sundi og vann alls sjö verðlaun á Ólympíuleikum á ferlinum. Hún fékk gull í tvö hundruð metra baksundi í Aþenu 2004 og Peking fjórum árum seinna. Coventry er sigursælasti Afríkubúi í sögu Ólympíuleikanna.

Auk Coventry voru Prince Feisal Al Hussein, Sebastian Coe, Johan Eliasch, David Lappartient, Juan Antonio Samaranch yngri og Morinari Watanabe í framboði til forseta IOC.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×