Viðskipti innlent

Jón Ólafur í fram­boði til for­manns SA

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Jón Ólafur Halldórsson ætlar að gefa kost á sér til formanns Samtaka atvinnulífsins.
Jón Ólafur Halldórsson ætlar að gefa kost á sér til formanns Samtaka atvinnulífsins. Vísir/Vilhelm

Jón Ólafur Halldórsson gefur kost á sér til formanns Samtaka atvinnulífsins (SA). Hann hefur setið í stjórn samtakanna frá 2015 og í framkvæmdastjórn frá árinu 2018.

Fyrr í morgun var greint frá því að Eyjólfur Árni Rafnsson, núverandi formaður Samtaka atvinnulífsins, ætli ekki að gefa kost á sér aftur á aðalfundi samtakanna sem fer fram 15. maí næstkomandi.

Greint er frá framboði Jóns Ólafs á vefsíðu SA. Jón Ólafur sat einnig í stjórn Samtaka verslunar og þjónustu frá árinu 2017 og var formaður samtakanna um sex ára skeið.

„Með því að bjóða mig fram sem formaður Samtaka atvinnulífsins er ég að bjóða fram krafta mína í þágu verðmætasköpunar, viðskiptafrelsis, einkaframtaks og alþjóðaviðskipta sem allt eru undirstöðuþættir velgengni í íslensku atvinnulífi,“ er haft eftir Jóni Ólafi í tilkynningu.

„Eitt af meginverkefnum samtakanna eru samskipti við stéttarfélög og gerð kjarasamninga fyrir hönd aðildarfyrirtækja en ég hef um árabil verið talsmaður þess að forsvarsmenn fyrirtækja taki virkan þátt í þeim.“


Tengdar fréttir

Eyjólfur Árni hættir hjá SA

Eyjólfur Árni Rafnsson verður ekki í framboði til formanns á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins sem fram fer 15. maí næstkomandi. Eyjólfur Árni hefur verið formaður Samtaka atvinnulífsins frá vorinu 2017.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×