Körfubolti

„Þú ert með góða taktíska greiningu og þetta gekk upp“

Smári Jökull Jónsson skrifar
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, kom ÍR-ingum líklega á óvart í kvöld en hans menn voru öflugir í vörninni í þessum mikilvæga leik.
Baldur Þór Ragnarsson, þjálfari Stjörnunnar, kom ÍR-ingum líklega á óvart í kvöld en hans menn voru öflugir í vörninni í þessum mikilvæga leik. Vísir/Pawel

Baldur Þór Ragnarsson þjálfari Stjörnunnar var ánægður með varnarleik sinna manna gegn ÍR í kvöld en var duglegur í klisjunum í viðtali við Andra Má Eggertsson eftir leik.

„Varnarleikurinn var frábær í dag og við þurfum að halda áfram einbeittir að gera hluti vel þar. Einn leik í einu,“ sagði Baldur pollrólegur eftir nokkuð öruggan sigur sinna manna.

Eins og Baldur segir var varnarleikur Garðbæinga góður og fyrir utan Jacob Falko voru ÍR-ingar í stökustu vandræðum oft að skora.

„Þetta gekk vel, 83 stig í íslensku deildinni telst held ég ágætt þegar við skorum svona mikið. Ánægður með það.“

Baldur sagði að mögulega hefði það komið ÍR á óvart að Ægir Þór Steinarsson hafi ekki verið settur til höfuðs Jacob Falko í vörninni hjá Stjörnunni.

„En þú sérð það í fyrstu sókn og svo aðlagar þú þig. Þetta gekk vel í dag og við skorum 101 stig sem hjálpar líka. Við þurfum að bæta það sem hægt er að bæta og halda áfram.“

ÍR minnkaði muninn í eitt stig í byrjun þriðja leikhluta en það virðist lítið hafa hrist upp í Baldri.

„Ég man ekki einu sinni eftir því. Þeir voru að gera vel í hraðaupphlaupum, fá mikið af sniðskotum sem ég var ekki sáttur með. Falko er líka bara geggjaður leikmaður, skorar 41 stig og það er hrikalega erfitt að eiga við hann. Frábær spilari og verður krefjandi að eiga við hann á mánudag.“

Jacob Falko með boltann.Vísir/Pawel

Andri Már nefndi að Stjörnumenn hefðu algjörlega náð að stoppa aðra leikmenn ÍR en Falko, til að mynda Matej Kavas sem skoraði aðeins tvö stig í leiknum.

„Þú ert með góða taktíska greiningu og þetta gekk upp. Við þurfum bara að halda áfram, einhverjir hlutir sem er hægt að bæta. Halda einbeitingu og einn leik í einu og öll klisjan.“

Baldur tjáði sig að lokum um Shaquille Rombley sem var ÍR-ingum afar erfiður með 27 stig og 19 fráköst og sérstaklega voru sóknarfráköstin hans drjúg fyrir Stjörnuna.

„Bara geggjaður og mikil orka í honum. Mikilvægt að vera með hann í þessum ham.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×