Lífið

Hafði mikla þörf fyrir að láta aðra sjá að hún væri spes týpa

Silja Rún Sigurbjörnsdóttir skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir er formaður Eflingar. Vísir/Vilhelm

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fór yfir ævi sína og störf í ítarlegu viðtali við Auðun Georg Ólafsson. Þar segir hún frá uppeldi sínu í Breiðholtinu, unglingsárunum og hvernig hún tók ung við móðurhlutverkinu.

Sólveig Anna, eða Solla eins og hún er oft kölluð, er alin upp í Breiðholtinu af foreldrum sínum Jóni Múla Árnasyni og Ragnheiði Ástu Pétursdóttur.

„Foreldrar mínir voru mjög trúlaus en þau lögðu mikið upp úr hefðum og gildum. Þessar kristnu hátíðir voru teknar mjög alvarlega heima hjá mér, jólin voru mikill hátíðartími og þau lögðu nú alltaf mikla áherslu á að kenna mér um þennan grundvallarboðskap kristininnar,“ segir Sólveig Anna.

„Mér ávallt sögð sagan af langalangömmu minni sem að grét af því að það var það sem maður gerði á föstudaginn langa. Þá gat maður farið í gegnum þann harm sem að maður hefði upplifað og syrgt, maður gat verið sorgbitinn.“

Sólveig Anna og Auðun Georg ræddu saman um líf hennar og störf.Vísir

Móðir hennar spilaði alltaf Jesú grætur heimar hlær á píanóið um páskana.

„Það var enginn harmur, það var verið að reyna að útskýra og kenna um hvað þessir hlutir snerust,“ segir Sólveig.

Söngvari The Cure tískuhetjan

Sólveig Anna lýsir sér sem stilltu barni og var ávallt með nefið ofan í einhverri ævintýrabók. Hún tók sérstaklega fram bókina um Emil eftir Astrid Lindgren. 

„Þegar ég var á fimmta ári þá kallaði ég mig Emil og neitaði að svara öðru.“

Henni fannst leiðinlegt í skóla og vildi miklu frekar vera heima að lesa heldur en að mæta. Á unglingsaldri gekk hún svo í Réttarholtsskóla þar sem vinkonuhópurinn stóð upp úr.

„Ég hafði ekki metnað fyrir náminu, ég var ekki með sérstaklega góða mætingu en ég átti góðan vinkonuhóp sem ég er enn í miklum tengslum við,“ segir Sólveig.

„Ég var þarna farin að aðhyllast mjög sérstakan stíl í klæðaburði og hafði greinilega, þegar ég hugsa til baka, mikla þörf fyrir að láta aðra sjá að ég væri svolítið spes týpa.“

Robert Smith, söngvari The Cure og tískuhetja Sólveigar Önnu á unglingsárunum.GETTY

Sólveig lýsir klæðaburðinum sem skrautlegum en hennar helstu tískuhetjur voru Robert Smith, söngvari hljómsveitarinnar The Cure og Tim Curry sem Frank-N-Furter í Rocky Horror Picture Show.

„Ég var mjög föl, með tætt úfið svart hár og mjög mikið máluð, mjög mikil augnmálning og ég vildi einhvern veginn tjá mig með þessum hætti. Með þessum hætti hélt ég að ég væri að gefa til kynna að ég væri sérstök týpa,“ segir Sólveig.

Á þeim tíma hafi þess konar klæðaburður ekki verið kallaður goth en Sólveig segist frekar hafa hallast að indie rokk tónlist á þessum tíma. Þrátt fyrir indie rokkið var söngvarinn Prince aðalmaðurinn í lífi Sólveigar og vinkvenna hennar lengi vel

„Við dáðum hann og dýrkuðum.“

Reynir að kenna börnunum sín gildi

Sólveig Anna tók við móðurhlutverkinu ung að aldri þegar hún eignaðist son sinni Jón Múla. 

„Ég verð ung móðir og það er það besta sem hefur gerst fyrir mig. Ég var 21 árs þegar sonur minn fæðist, á tvo mánuði í að verða 22 ára. Þarna er ég voðalega týnd og þarna fæ ég barnið í hendurnar og loksins upplifi ég rosalega ábyrgðartilfinningu sem ég hafði ekki upplifað áður,“ segir hún.

„Ég fer af djamminu í móðurhlutverkið og það voru mjög góð skipti, ég leit aldrei til baka og var rosa ánægð með það. Það vöknuðu strax miklar og sterkar móðurtilfinningar og ég naut þess að vera með barninu.“

Þremur árum síðar eignaðist hún dótturina Guðnýju Margréti.

Sólveig segir að hún og maðurinn hennar, Magnús Sveinn Helgason, hafi reynt að ala börnin upp eftir sömu gildum og hún upplifði í barnæsku. 

„Uppeldið sem að ég fékk markast af því að þarna er maður sem er fæddur 1921 og fullorðið fólk. Þetta er fólk sem að sér heimsstyrjaldir og upplifir svo ótrúlega mikla heimssögulega atburði.“

Það hafi því verið aðrir tímar sem foreldrar hennar upplifðu heldur en hún sjálf.

„Við höfum reynt að útskýra fyrir þeim hver gildin okkar séu en á sama tíma hefur þetta verið minna markvisst.“

Þau eru kapítalistar kannski?

„Nei, nei alls ekki. Róa sig.“ 

Hlusta má á viðtalið í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.