RÚV hefur gefið nokkrar vísbendingar á Instagram síðasta sólarhringinn og í umræðuhópum á Facebook hefur fólk leikið sér að því að giska á nöfn flytjanda. Hafa verið nefndir listamenn á borð við Suncity (Sólborgu Guðbrandsdóttur) og Haffa Haff, út frá myndunum sem sjá má hér fyrir neðan.

Nú þegar hefur komið fram hér á Vísi að hljómsveitin Reykjavíkurdætur eigi eitt af lögunum tíu sem kynnt verður annað kvöld. Vildu meðlimir hljómsveitarinnar þó ekki staðfesta þetta í samtali við fréttastofu, sem hafði þessar upplýsingar eftir öruggum heimildum.
Mikið leynd hefur hvílt yfir flytjendum laganna tíu en framkvæmdastjórn keppninnar segir að þar megi finna reynslumikla lagahöfunda, þekkta flytjendur, vonarstjörnur og verðlaunahafa á sviði tónlistar.
Tíu lög keppa um farmiðann til Tórínó þar sem Eurovision keppnin verður haldin í maí. Tvær undankeppnir fara fram hér á landi dagana 26. febrúar og 5. mars í Söngvakeppnishöllinni svokölluðu í Gufunesi.
Úrslitin ráðast svo laugardaginn 12. mars. Ísland mun keppa í fyrri undankeppninni, sem fer fram þann 10. maí. MIKA er einn kynnir keppninnar í ár.
