Lífið

„Við viljum alls ekki líta út eins og aumingjar“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Ragnhildur Þórðardóttir segir að steitan sé að keyra alltof marga í kaf og ræna þá lífshamingjunni.
Ragnhildur Þórðardóttir segir að steitan sé að keyra alltof marga í kaf og ræna þá lífshamingjunni. Vísir/Vilhelm

Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, er nýr pistlahöfundur hér á Vísi. Hún mun skrifa um allt sem tengist andlegri og líkamlegri heilsu. Ragga er lærður sálfræðingur og starfar einnig sem þjálfari, hún hefur auk þess mikla ástríðu fyrir matargerð svo auðvitað munu birtast hér uppskriftir eftir hana líka. Fyrsti pistill Röggu birtist fyrr í dag og fjallar hann um streitu. Við fengum því að því tilefni að kynnast henni aðeins betur.

„Eftir vægast sagt brokkgenga skólagöngu í Menntaskólanum í Reykjavík þar sem lífið snerist meira um næsta skólaball og helgarferðir í borg óttans en lá leiðin í Háskóla Íslands. Þar puðaði ég í B.A í sálfræði og útskrifaðist árið 2004. Þar kynntist ég heilsusálfræði og það var algjörlega mín hilla í lífinu. Svo ég skellti mér til Bretlands og tók M.Sc Health Psychology frá University of Surrey og útskrifaðist 2007. Svo eftir að við fluttum til Köben þá henti ég í þriðju gráðuna með að dúndra mér í Cand. Psych í klínískri sálfræði og útskrifaðist 2014.“

Síðan þá hefur Ragga verið með eigin sálfræðistofu í Kaupmannahöfn og fær mjög marga Íslendinga til sín sem finnst gott að tjá tilfinningar á eigin tungumáli.

„Ég fæ fjölda fólks sem glímir við öll heimsins vandamál eins og óheilbrigt samband við mat, kvíða, streitu, kulnun, depurð, samskiptavanda og margt fleira. Einnig býð ég uppá fjarsálfræði í gegnum fjarfundabúnaðinn Köru Connect og get þannig boðið þjónustu mína um allan heim en margir á Íslandi hafa nýtt sér þennan vettvang til að fá sálfræðimeðferð sitjandi heima í stofu.”

Vildi skrifa um ástríðuna

Ragga hefur skrifað pistla í 15 ár svo hún er svo sannarlega enginn byrjandi á þessu sviði.

„Árið 2005 var ég í mastersnámi í Bretlandi og byrjaði með bloggsíðu á Moggablogginu sáluga því ég var haldin þeirri ranghugmynd að allir hefðu pervertískan áhuga á grámyglulegum hversdagsleika fátæka námsmannsins. En þegar flestar bloggfærslur voru æsispennandi frásagnir af mér að fara í matvörubúðina og horfa á breska sakamálaþætti þá ákvað ég að byrja að skrifa frekar um ástríðu mína sem voru mataræði og hreyfing en gera það á mannamáli og með skemmtilegum vinkli. Þaðan  færði ég mig á Heilsupressuna árið 2012-2014 en svo stofnaði ég Facebook síðuna mína Ragga Nagli og undanfarið hafa pistlarnir mínir aðallega birst þar og á heimasíðunni minni www.ragganagli.com“

Hún segist spennt fyrir því að bætast í hópinn á Vísi. „Það er mér mikill heiður að fá að tjá mig á stærsta og flottasta fjölmiðli landsins og gríðarlega þakklát að fá stærri vettvang til að breiða út boðskapinn um dásemdir þess að lifa heilsusamlegu lífi í jafnvægi með heilbrigðu sambandi við mat, hreyfingu og líkamann.“  

Ragga ætlar að fjalla um allt á milli himins og jarðar sem viðkemur heilsunni.

Allt frá Krossfit í kvíða, frá spretthlaupum í streitu, frá ketó í kulnun, frá meðvirkni í ólympískar lyftingar.  Því heilsa er ekki einungis líkamleg, heldur líka sálræn, félagsleg og tilfinningaleg. Og þar sem ég er annálað matargat og þá verður nóg af uppskriftum, sykurlaus sætindi fyrir sælkera og gómsætir hollusturéttir fyrir gúrmetispésa. Nóg af tólum og trixum til að fækka skrefum í átt að heilsuhegðun með að undirbúa máltíðir fram í tímann og gera heilsulífið þannig að dansi á rósum.“

Fyrsti pistill Röggu hér á Vísi nefnist Appelsínugul viðvörun og fjallar um streitu.

„Því ég sé það í mínu starfi að fjölmargir glíma við streitu, svefnleysi, kvíða af kröfum samtímans og að halda öllum boltum lífsins á lofti án þess að fipast. Fullkomnunaráráttan er algjör dragbítur sem krefur okkur um óaðfinnanlega frammistöðu á öllum sviðum en því miður verða þessar innri og ytri kröfur of miklar fyrir úrræðin okkar og við bugumst. Streitan er því miður algjör bölvaldur sem er að keyra alltof marga í kaf og ræna þá lífshamingjunni. Í alvarlegustu tilfellunum er þeim kippt út úr lífinu og það er ákveðinn skellur fyrir sjálfsmyndina sem krefst þess að fólk horfist í augu við allskyns nýjar tilfinningar eins og skömm og sektarkennd.“

Vísir/Vilhelm

Sterkir víkingar

Aðspurð um ástæðu þess að streitan er að hrjá svo marga, svarar Ragga:

„Við Íslendingar erum svo miklir harðjaxlar og berjumst við skafrenning og slyddu rok og rigningu. Börnin sofa úti í vagni í brunagaddi Að horfast í augu við að ráða allt í einu ekki við öll verkefni lífsins og bugast er verulegt skarð í sjálfsmyndina sem ofurmennið með allt á hreinu. Því við viljum alltaf vera hörð út á við. Þetta lýsir sér vel í þegar klassísku spurningunni: „Jæja, hvernig gengur?” er kastað fram og við svörum á hátíðninni “Jú, allt bara dúndurvel” . En kannski allt í rugli í einkalífinu, skilnaður, fjármálin í steik, ósáttur í vinnunni og barnið lagt í einelti. Í Danmörku, svarar fólk yfirleitt af hreinskilni og segir hvað sé að plaga viðkomandi. það eigum við bara örlítið erfitt með, af því við viljum alls ekki líta út eins og aumingjar og eiga á hættu að einhver bjóðist til að hringja á vælubílinn. Okkar ímynd er sterki víkingurinn og við getum allt.“

Ragga segir að það séu ýmis hættumerki sem fólk ætti að vera vakandi fyrir.

„Að vera í streitukerfinu með kortisól og adrenalín í kerfinu í jafnvel átta til sextán klukkustundir á dag í marga mánuði, er ekki hollt fyrir líkamann. Við förum að brenna út sem hefur neikvæð áhrif á heilsuna. Blóðsykurinn hækkar sem hefur áhrif á hjarta- og æðakerfið, hár blóðþrýstingur, og kortisól bælir ónæmiskerfið, sem yfir langt tímabil er það slæmt og við pikkum upp allar pestir. Barnið kemur heim af leikskólanum með hor í nös og BINGÓ… við komin með kvef eða gubbupest. Við förum að sofa illa. Einangrum okkur félagslega. Verðum áhyggjufull yfir smáatriðum og lítil í okkur gagnvart allskyns verkefnum, bara það að ryksuga eða halda matarboð verður jafn flókið og að skipta um hjartaloku. Fólk áttar sig oft á að streitan sé að sliga sinnið þegar minnið fer að bregðast okkur. Gleymum fundum, týnum lyklum, gleyma veskinu í búðinni. Kortisól minnkar nefnilega drekann (hippocampus), minnisstöðina í heilanum. Meltingartruflanir gera vart við sig, sem og þunglyndi, kvíði, pirringur, síþreyta og orkuleysi og stöðugt samviskubit yfir hinu og þessu.“

Pottur á heitri hellu

Hlaðvarpið hennar Röggu, Heilsuvarpið, verður svo bráðum aðgengilegt hér á Vísi bæði nýir og eldri þættir.

„Heilsuvarpið er svona gæluverkefni hjá mér, og aldrei grunaði mig að ég yrði hlaðvarpari, hvað þá að einhver myndi nenna að hlusta á mig en það hefur fengið gríðarlega góðar viðtökur og ég er afar þakklát hve margir hafa áhuga á að fræðast um allskonar heilsustöff.“

Ragga fær til sín viðmælendur sem eru sérfræðingar á sínu sviði í mjög lífrænt og létt spjall um heilsutengd málefni og reynir hún að miðla þar ráðleggingum sem hlustendur geta tekið með sér.

„Gestir mínir hafa til dæmis verið Erla Björnsdóttir svefnsálfræðingur, Evert Víglundsson Crossfit þjálfari, Guðmundur Birkir Pálmason kírópraktór, Ásdís Ragna grasalæknir, Sölvi Tryggvason heilsugúrú, Árni Þóroddur sálfræðingur og margir fleiri. Ég er með frábæran styrktaraðila að Heilsuvarpinu, Lífsalt, sem er nýtt íslenskt sjávarsalt á sem inniheldur hærra kalíum og magnesíum magn en annað salt en langvarandi streita getur gengið verulega á kalíum og magnesíumbirgiðir líkamans.”

Hún segir að það sé mikilvægt að setja sjálfan sig í fyrsta sæti.

„Það er enginn ósigur að stimpla sig út úr vinnunni í nokkrar vikur til að vinna í sjálfum sér og heilsunni og þegar við erum útbrunnin erum við eins og pottur á heitri hellu sem bullsýður. Í veikindaleyfi erum við að taka pottinn af hellunni en hvað gerist ef potturinn er settur strax aftur á heita helluna? Það fer strax að sjóða aftur. Hið sama gildir um okkur þegar við snúum aftur til baka úr veikindafríi, ef við höfum ekkert unnið í okkur sjálfum og heilsunni, við förum að sjóða við minnsta áreiti. Við byggjum upp mótstöðuafl í veikindaleyfi og því nauðsynlegt að nýta tímann til að vinna í sjálfum sér og styrkja grunnstoðir heilsunnar: svefn, mataræði, hreyfing, félagslíf og hugarfar.”






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.