Málið á sér enga hliðstæðu í íslenskri réttarsögu
Dómur yfir Angjelin Sterkaj sem skaut Armando Beqirai til bana í Rauðagerði í febrúar í fyrra, var þyngdur úr sextán árum í tuttugu í Landsrétti í dag. Þá sneri dómurinn við sýknu héraðsdóms yfir þremur öðrum sem eru að mati Landsréttar öll sek um samverknað og voru dæmd í fjórtán ára fangelsi. Angjelin var einnig dæmdur til að greiða fjölskyldu Armandos rúmar fimmtíu milljónir króna í miska- og skaðabætur. Fram kemur í dómi Landsréttar að málið eigi sér enga hliðstæðu í íslenskri réttarsögu og að atlaga fjórmenninganna að Armando hafi verið þaulskipulögð, ofsafengin og miskunnarlaus. Þetta eru einir þyngstu dómar sem fallið hafa á Íslandi og niðurstaðan kom verjendum verulega á óvart.