Upp­gjör: Kefla­vík - FH 3-4 | Stór­kost­leg endur­koma hjá FH-liðinu gegn lánlausum Kefl­víkingum

Hjörvar Ólafsson skrifar
449769918_26386204044298231_5219435979744874754_n
vísir/diego

Keflavík kastaði frá sér þriggja marka forystu og þremur mikilvægum stigum í fallbaráttu sinni í Bestu deild kvenna í fótbolta þegar liðið fékk FH í heimsók á HS Orku-völlinn í í 17. umferð deildarinnar í kvöld. Lokatölur urðu 4-3 fyrir FH í heldur betur kaflaskiptum leik. 

Ariela Lewis, sem gekk til liðs við Keflavík frá Aftureldingu í vikunni, stimplaði sig rækilega inn í Keflavíkurliðið í þessum leik. Tilkoma hennar og Simonu Rebekku Meijer gjörbreytir dýnamíkinni í liði Keflavíkur og það var mikill kraftur í heimakonum í þessum leik.

Keflavík hafði fyrir þennan leik skorað 12 mörk í fyrstu 16 leikjum sínum í deildinni í sumar en í kvöld opnuðust allar flóðgattir og mörkunum rigndi inn í votviðrinu suður með sjó.

Það var aftur á móti ekki svipur hjá sjón að sjá FH-liðið í fyrri hálfleik en það stóð ekki steinn yfir steini í varnarleik liðsins. Liðið stillti upp í þriggja manna varnarlínu með fjóra leikmenn inni á miðsvæðinu. Kantarnir voru af þeim sökum ansi opnir í þessum leik og það nýttu Keflavíkurkonur sér til fullnustu.

Guðni Eiríksson, þjálfari FH, gerði þrefalda skiptingu í hálfleik en Andrea Marý Sigurjónsdóttir, Selma Sól Sigurjónsdóttir og Hildur Katrín Snorradóttir leystu Hönnu Kallmeier, Thelmu Karen Pálmadóttur og Jónínu Linnet af hólmi. Guðni gerði samfara þessu taktíska breytingu á liði sínu sem gekk svo sannarlega upp.

Það kveikti heldur betur líf í gestunum og Snædis María Jörundsdóttir klóraði í bakkann með góðu marki í upphafi seinni hálfleiks.

Hildur Katrín stangaði svo boltann í netið eftir hornspyrnu Elísu Lönu Sigurjónsdóttur um miðbik seinni hálfleiks og sá til þess að það var mikil spenna síðustu 20 mínútur leiksins.

Undir lok leiksins jafnaði svo Hildigunnur Ýr Benediktsdóttir metin með marki sínu beint úr hornspyrnu. Það var svo Breukelen Lachelle Woodard fullkomnaði endurkomu FH-liðsisn með stórglæsilegu marki þegar skammt var eftir af leiknum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira