Innlent

Segir Svandísi afþakka 15 milljarða

Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra lýsti því yfir í morgun að hún ætlaði ekki að sækja um undanþágur frá Kyoto-bókuninni fyrir mengandi stóriðju. Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að þar með hafi umhverfisráðherra afsalað sér fyrir hönd þjóðarinnar fimmtán milljarða króna verðmætum.

Svandís lýsti þessu yfir í setningarræðu á Umhverfisþingi á Hótel Nordica í Reykjavík í morgun þar sem hún ræddi um væntanlega loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Kaupmannahöfn. Hún sagði það skipta máli að allir kæmi þar að borðinu með gagnlegt innlegg en ekki sérkröfur og undanþágubeiðnir. Þessvegna ætlaði hún ekki, fyrir Íslands hönd, að biðja um nýjar undanþágur fyrir stóriðju eða aðra starfsemi á Íslandi. Íslendingar ættu að vinna innan alþjóðlegs regluverks í loftslagsmálum en ekki að reyna að fá undanþágur til að vera einhverskonar aflandsparadís fyrir mengandi losun.

Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, ræddi þetta mál í utandagskrárumræðu á Alþingi í fyrradag og sagði að þjóðin stæði þá frammi fyrir þeim vanda að tapa miklum verðmætum í loftslagssheimildum þar sem umhverfisráðherra afsalaði sér fyrir hönd þjóðarinnar einum 15 milljörðum króna á því tímabili sem Kyoto-bókunin næði yfir. Málið yrði í algjöru uppnámi.
















Fleiri fréttir

Sjá meira


×