Enski boltinn

Lennon: Ein besta vikan á ferli Eiðs Smára

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Eiður bjargaði stigi fyrir Bolton í dag.
Eiður bjargaði stigi fyrir Bolton í dag. vísir/getty
Neil Lennon, knattspyrnustjóri Bolton Wanderers, segir að vikan sem senn líður undir lok sé ein sú besta á ferli Eiðs Smára Guðjohnsen.

Eiður kom inn á sem varamaður í leik Bolton og Blackpool í ensku B-deildinni í dag og tryggði sínum mönnum stig þegar hann skoraði jöfnunarmark Bolton í uppbótartíma.

Eiður var einnig á skotskónum þegar Ísland vann 3-0 sigur á Kasakstan í Astana fyrir viku.

„Eiður er sérstakur; hann hefur átt glæsilegan feril en þessi vika er ein sú besta á ferli hans,“ sagði Lennon en Eiður lék áður með Bolton á árunum 1998-2000.

„Þetta er frábær saga. Framtíðin var í lausu lofti hjá honum þegar við hittum hann í Manchester og sannfærðum hann um að koma og æfa með okkur. Hann hefur verið stórkostlegur síðan hann kom.

„Hann vildi komast aftur í landsliðið, sem honum hefur tekist,“ bætti Lennon við.

Eiður og kona hans, Ragnhildur Sveinsdóttir, eignuðust sitt fjórða barn á miðvikudaginn og af þeim sökum sneri Eiður ekki aftur til Bolton fyrr en í gær. Lennon segir það vera ástæðuna fyrir því að Eiður byrjaði á varamannabekknum í dag.

„Hann kom svo stuttu fyrir leik að við gátum ekki látið hann byrja. En síðan kom hann inn á og skoraði mark þegar við þurftum á því að halda,“ sagði Lennon.

Eiður hefur skorað fjögur mörk fyrir Bolton í 16 deildarleikjum en liðið er í 16. sæti deildarinnar með 46 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×