Enski boltinn

Undramark Adam dugði ekki til | Sjáðu markið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chelsea náði sjö stiga forystu á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 2-1 sigri á Stoke City á heimavelli í kvöld.

Leiksins verður þó fyrst og síðast minnst fyrir stórkostlegt mark Charlie Adam, leikmanns Stoke, sem skoraði með stórkostlegu skoti, langt fyrir aftan miðju, sem fór í boga yfir Thibaut Courtois, markmann Chelsea, sem stóð of framarlega.

Markið ævintýralega má sjá í spilaranum hér að ofan og mörk Chelsea hér að neðan.

Adam jafnaði metin í 1-1 á 44. mínútu, fimm mínútum eftir að Eden Hazard kom Chelsea yfir með marki úr vítaspyrnu. Hazard, sem var besti maður vallarins, átti svo stóran þátt í sigurmarki Chelsea sem Loic Rémy skoraði á 62. mínútu.

Asmir Begovic, sem hafði leikið svo vel í marki Stoke, átti þá misheppnað kast fram völlinn. Heimamenn voru fljótir að refsa, Hazard lék inn fyrir vörn Stoke og sendi svo boltann til hliðar á Rémy sem skoraði í opið markið.

Þetta var í sjöunda sinn í vetur sem Hazard leggur upp og skorar í sama deildarleiknum. Belginn er allt í allt kominn með 12 mörk og sjö stoðsendingar í deildinni í vetur.

Chelsea varð þó fyrir áfalli þegar Diego Costa varð að yfirgefa völlinn snemma í seinni hálfleik vegna meiðsla aftan í læri.

Chelsea er með 70 stig í toppsæti deildarinnar og stefnir hraðbyri að fimmta Englandsmeistaratitlinum í sögu félagsins.

Stoke hefur tapað þremur leikum í röð og situr í 10. sæti deildarinnar.

Hazard kemur Chelsea yfir Remy kemur Chelsea í 2-1



Fleiri fréttir

Sjá meira


×