Lífið

Jóhanna Ruth vann söngkeppni Samfés

Stefán Árni Pálsson skrifar
Jóhanna Ruth Luna Jose úr félagsmiðstöðinni Fjörheimum í Reykjanesbæ bar sigur úr býtum úr Söngkeppni Samfés sem fór fram í Laugardalshöll í dag. Jóhanna Ruth söng lagið Girl on Fire með Alicia Keys.

Í öðru sæti lenti Símon Orri Jóhannsson úr Arnardal með óperuna La donna e mobile. Í þriðja sæti var Levi Didriksen úr félagsmiðstöðinni Hundrað&ellefu en hann flutti lagið Titanum. Félagsmiðstöðin Laugó fékk sérstök verðlaun fyrir frumlegasta atriðið en söngkonurnar Ragnheiður Ingunn og Bríet Ísis fluttu frumsamið lag, Sólskin.

Dómnefndin var skipuð Hildi Kristínu Stefánsdóttur, Rögnu Björgu Ársælsdóttur, Stefaníu Svavarsdóttur og Sverri Bergmann. Þau áttu það erfiða verkefni fyrir höndum að velja bestu atriðin af þeim þrjátíu sem kepptu. Undankeppnir fóru fram í öllum landshlutum og bestu söngvararnir og söngkonurnar voru valin til þátttöku.

Það má því með sanni segja að efnilegustu söngvarar og söngkonur landsins hafi stigið á svið í höllinni í dag. Flest laganna voru flutt af ungum hljóðfæraleikurum og nokkur þeirra voru frumsamin. Keppnin var send út í beinni útsendingu á sjónvarsstöðinni Bravó.

Söngkeppni Samfés, samtaka félagsmiðstöðva á Íslandi er hluti af SamFestingnum – stærstu unglingaskemmtun landsins. Rúmlega 2.200 áhorfendur fylgdust með þrjátíu bestu söngatriðum landsins í dag en í gærkvöldi fylltu 4.300 unglingar höllina og fylgdust með tónleikum með helstu hljómsveitum landsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×