Erlent

Talsmaður Unicef í Sýrlandi segir ástandið í Madaya óásættanlegt

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Hjálpargögn bárust til Madaya í fyrsta skipti í þrjá mánuði nú í vikunni.
Hjálpargögn bárust til Madaya í fyrsta skipti í þrjá mánuði nú í vikunni. vísir/epa
Hanaa Singer, talsmaður Unicef í Sýrlandi, segir starfsmenn samtakanna hafa verið í sjokki yfir ástandinu í bænum Madaya sem sýrlenski stjórnarherinn hefur setið um í hálft ár.

Matur, lyf og önnur hjálpargögn bárust til bæjarins núna í vikunni í fyrsta skipti í þrjá mánuði. Fjörutíu þúsund manns búa í Madaya en hátt í þrjátíu manns hafa látist þar úr vannæringu síðustu vikurnar.

Starfsfólk Unicef fór á bráðabirgðaspítala í Madaya í vikunni þar sem voru 22 börn undir 5 ára aldri sem þjást af vannæringu. Þá voru þar sex börn á aldrinum 6-18 ára sem einnig eru alvarlega vannærð.

„Fólkið sem við hittum í Madaya var þreytt og afskaplega veikburða,“ er haft eftir Singer á CNN. „Læknarnir sem við hittum voru ein taugahrúga enda vinna þeir allan sólarhringinn við afar slæmar aðstæður. Það er einfaldlega óásættanlegt að þetta sé að gerast á 21. öldinni.“

Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, hefur sagt að það sé stríðsglæpur af hálfu Sýrlandsstjórnar að nota hungursneyð sem vopn.


Tengdar fréttir

400 íbúar í Madaya þurfa lífsnauðsynlega á læknisaðstoð að halda

Fleiri en 400 íbúar fjalaþorpsins Madaya í Sýrlandi, sem stjórnarherinn hefur setið um í hálft ár, þurfa tafarlausan flutning á spítala. Þetta segir talsmaður mannúðarmála hjá Sameinuðu þjóðunum en fulltrúar þeirra fóru með hjálpargögn til bæjarins í gær.

Hjálpargögn send til Madaja

Nærri fjögur hundruð þúsund manns búa við sára neyð vegna átaka og umsáturs stjórnarhersins eða uppreisnarmanna í Sýrlandi. Stuðningsmenn Assads gera grín að sveltandi fólki í Madaja.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×