Handbolti

Anton og Jónas hita upp fyrir bronsleikinn í Köln með oddaleiknum í kvöld

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Anton og Jónas verða í eldlínunni í kvöld.
Anton og Jónas verða í eldlínunni í kvöld. vísir/stefán
Fremsta dómarapar landsins, þeir Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson, munu dæma oddaleik Hauka og Aftureldingar í Schenker-höllinni í kvöld.

Þeir félagar dæmdu einnig fjórða leik liðanna í N1-höllinni í Mosfellsbæ á mánudaginn þar sem Haukar fóru með sigur af hólmi, 29-30.

Þetta er í annað sinn sem Anton og Jónas dæma oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í karlaflokki. Fyrir tveimur árum dæmdu þeir oddaleik Hauka og ÍBV í Schenker-höllinni þar sem Eyjamenn fögnuðu sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli.

Sjá einnig: Þreytan hefur ekkert háð Haukum

Anton dæmdi einnig oddaleik Hauka og Vals 2010 með Hlyni Leifssyni og er því að dæma sinn þriðja oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn. Anton jafnar þar með við Stefán Arnaldsson sem dæmdi þrjá oddaleiki um Íslandsmeistaratitilinn á sínum tíma.

Stefán dæmdi oddaleik Vals og KA 1995 ásamt Rögnvaldi Erlingssyni og oddaleiki KA og Hauka 2001 og Vals og KA ári seinna með Gunnari Viðarssyni.

Þótt þetta verði síðasti leikurinn sem Anton og Jónas dæma á þessu Íslandsmóti eru stór verkefni framundan hjá þeim félögum.

Anton og Jónas munu dæma leikinn um bronsið á Final Four helgi Meistaradeildar Evrópu í Köln sunnudaginn 29. maí og þá verða þeir meðal dómara á Ólympíuleikunum í Ríó í ágúst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×